7.8 C
Selfoss

Mannréttindi eru þitt mál

Vinsælast

Á vegum forsætisráðuneytisins er nú unnið að gerð svokallaðrar Grænbókar um mannréttindi en hún er undanfari frekari stefnumótunar í málaflokknum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðar af þessu tilefni til opins samráðsfundar á Hótel Selfossi mánudaginn 29. ágúst nk. kl. 4. Sá fundur er hinn fyrsti í fundaröð forsætisráðherra um landið sem ætlað er að efna til samræðu um stöðu mannréttindamála á Íslandi og sýn til framtíðar

Grænbók er yfirlit yfir stöðu mannréttinda á Íslandi og í henni er safnað á einn stað upplýsingum um mannréttindi, þróun, tölfræði, samanburði við önnur lönd og samantekt um mismunandi leiðir til að mæta þeim áskorunum sem blasa við í mannréttindamálum, m.a. í tengslum við stofnun sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar. Slík stofnun er til dæmis forsenda þess að hægt sé að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Víðtækt samráð

Verkefnaáætlanir og tímalína verkefnisins var í lok mars birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins þar sem kallað var eftir umsögnum. Hagsmunasamtök á sviði mannréttinda sendu inn umsagnir þar sem þessum áformum var einróma fagnað, en þessi samtök eru Landssamtökin Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofa Íslands, UN Women á Íslandi, Rauði krossinn, Barnaheill, Öryrkjabandalag Íslands og Kvenréttindafélag Íslands. Í umsögnunum er ítrekað bent á að tryggja þurfi sjálfstæði fyrirhugaðrar mannréttindastofnunar og nægjanlegt fjármagn svo hún geti sinnt verkefnum sínum með sóma, þ.m.t. ráðgjöf til einstaklinga, stofnana og félagasamtaka. Fundaröðin um landið er liður í þessu víðtæka samráði.

Hvað eru mannréttindi?

Á fundinum á Selfossi mun forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, flytja ávarp. Auk hennar mun dr. Kári Hólmar Ragnarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, fjalla um spurninguna Hvað eru mannréttindi? Loks flytur Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar örerindi. Þá verður þátttakendum skipt í hópa til frekari umræðu um stöðu mannréttinda á Íslandi, helstu áskoranir, tækifæri og valkosti til framfara. Fundarstjóri er Hildur Jónsdóttir, verkefnisstjóri SIGURHÆÐA – þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi.

Gert er ráð fyrir að Grænbókin verði tilbúin á fyrstu mánuðum næsta árs og verður hún þá kynnt í samráðsgátt Stjórnarráðsins. Í kjölfarið hefst vinna við frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun. Eru vonir bundnar við að frumvarpsdrögin verði hægt að kynna á sama vettvangi þegar snemmsumars 2023 þar sem öllum gefst tækifæri til að koma skoðunum sínum að. Þess er svo vænst að hægt verði að leggja endanlegt frumvarp fram á Alþingi haustið 2023.

Öll eru velkomin, en þátttakendur eru beðnir að skrá sig á vef Stjórnarráðsins.

Nýjar fréttir