1.1 C
Selfoss

Rangæingar sýna Njálu litla virðingu

Vinsælast

Ein allra merkasta saga fornbókmenntanna er Njálssaga hún er höfuðdjásn Rangárþings. Ráðamenn í Rangárþingi sýna sögunni litla virðingu og er það skömm hvernig mál hafa verið að þróast síðustu árin.
Brennu-Njálssaga er þekkt um víða veröld og hingað koma ferðamenn og háskólar erlendis frá í ferðir til að upplifa aðstæðurnar. Íslendingar sækja í Njáluferðir, hún er leikin í leikhúsum í Reykjavík við vinsældir og lesin í leshringum um allt land. Þórhildur Jónsdóttir í Lambey kom heim með myndlistarsýningu á dögunum, samvinnuverkefni við skólakerfið. Hetjurnar úr Njálu verða ljóslifandi þegar gengið er um galleríið hans Jónda föður hennar en þar sýnir hún list sína.
Af miklum myndarskap stofnuðu ráðamennirnir í sýslunni Sögusetur á Hvolsvelli, og urðu fyrstir í landinu til að ráðast í slíkt verkefni.
Í Sögusetrinu á Hvolsvelli  unnu garpar eins og Arthúr Björgvin Bollason og síðar Sigurður Hróarsson. Þar voru sögur sagðar, uppákomur matveislur, leikrit og allt fullt af fólki til að njóta Njálssögu. Jón Böðvarsson fór sem leiðsögumaður með þúsundir manna Njáluhringinn og margir fleiri sögumenn.

Nú er Njálusetrið hornkerling

Hver er staðan í dag, í Sögusetrinu sortnar manni fyrir augum þar  er hamborgara-staður, og svínarif eru steikt frá morgni til kvölds, Njálusetrið er orðin hornkerling. Ekkert minnir á Gunnar og Hallgerði þá komið er að Hlíðarenda, og vegurinn heim varla rútufær. Á Bergþórshvoli eru fjörutíu ára máðar upplýsingar upp á hvolnum.
Því er ekki merking við Gunnarshólma, þar sem Gunnar sneri aftur? Hvar er Ossa-bær Höskuldar Hvítanesgoða? Þetta eru staðir sem ferðamenn vilja sjá og upplifa. Hermann Árnason vatnareiðmaðurinn knái ákvað að rannsaka söguna og fór að eins og Flosi reið frá Svínafelli eftir messu á sunnudegi fyrir þremur árum og var kominn um nónbil annan dag vikunnar á Þríhyrningshálsa, enginn flaggaði enginn athöfn í héraði.
Einhverjir falsspámenn fara um og segja Njálssögu skáldsögu eða í besta falli lygasögu. Við Íslendingar skrifuðum 300 bækur á þrettándu öld, allt sannsögulegar bækur úr minni fólksins. Njálurefillinn afrek ekki síst kvenna í Rangárþingi ekki enn kominn upp og enginn staður sem hentar honum til í sögu-héraðinu. Er ekki tímabært að austur og vestur sýslan sameinist um þetta vekefni, rígurinn milli Hellu og Hvolsvallar er liðin tíð. Nú er grafið að Odda og sagt er að svo merkilegt sé þar í jörðu að það jafnist við Skálholt.
Oddi á skilið Reykholts-kirkju sem í senn væri fjölnotahús með Njálusetri sögu Oddaverjanna og Sæmundar Fróða, Jóns Loftsonar og Snorra Sturlusonar sem Jón fóstraði til tví-tugs. Rangæingar þurfa eina stóra kirkju, auðvitað byggða í Odda, þar myndu Hella og Hvolsvöllur sameinast um kirkju og Sögusetur. Ég skora á sveitarstjórnir Rangárþings og ferðaþjónustu sýslunnar að taka nú höndum saman og hefja Njálssögu til vegs og virðingar. Ég hefi rætt það við Hermann Árnason að næsta sumar fari níutíu og níu  hetjur ríðandi í lok ágúst frá Þríhyrningi og ríði að Berg-þórshvoli til brennunnar og sanni að frásögn Njálu sé rétt.
Flosi ætlaði sér þrjá tíma í reiðina var kominn að Bergþórshvoli um náttbil eða kl. 21. Þetta gæti orðið árlegur viðburður Sögusetursins. Ég tel víst að Ríkisstjórnin og Alþingi með men-ingarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur í fararbroddi muni styðja þessa uppbygg-ingu. Þið voruð upphafsmenn með Sögusetrið eru nú eftirbátar, Landnámsseturs-ins í Borgarnesi. Sturlunganna í Dölunum og Eiríksstaða. Sögusetrið ykkar var undanfari en hefur rekið uppá sker.  Sturlungahátíð er haldin árlega, afhverju ekki Njáluhátíð á hverju sumri?
Nú brettum við upp ermar Rangæingar og sýnum að við séum af hetjum komnir.

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir