-0.5 C
Selfoss

Allir litir regnbogans

Vinsælast

Dagbjört Harðardóttir, forstöðukona frístundahúsa Árborgar er ötul talskona hinseginleikans en þau í Pakkhúsinu fengu hugmyndina að fallegu regnbogatröppunum sem prýða nú Ráðhús Árborgar.

Meðal frístundahúsa Árborgar er Pakkhúsið sem er ungmennahús fyrir 16-25 ára en í Pakkhúsinu er boðið upp á hinsegin hittinga á veturna sem fóru af stað síðasta haust og hefja göngu sína aftur á næstunni. „Hugmyndin að regnbogatröppunum kviknaði vegna öldu hatursorðræðu og leiðindaatvika sem hafa átt sér stað í samfélaginu á undanförnum misserum og við vitum að sýnileiki er sterkasta vopnið gegn hatri, fáfræði og fordómum. Okkur datt í hug að mála tröppurnar í regnbogalitunum til að sýna samstöðu. Ráðhúsið er í alfaraleið hérna á selfossi og viljum sýna að við séum sveitarfélag sem vill styðja við bakið á hinsegin samfélaginu, viljum að þau viti að við stöndum með þeim og séum að hugsa um þau. Ég hafði samband við Fjólu bæjarstjóra og fyrirspurnin fór fyrir bæjarráð sem samþykkti þetta einróma. Síðan tók 17+ hópurinn í vinnuskólanum ásamt flokkstjórum það að sér að mála tröppurnar.

Hinsegin dagar í Árborg eru komnir til að vera

Dagbjört er meðlimur í forvarnarteymi Árborgar en í janúar á þessu ári stóðu þau fyrir fyrstu Hinsegin dögunum í Árborg. „Við fengum allt sveitarfélagið í lið með okkur, leikskólar, skólar og fjölmargar stofnanir sveitarfélagsins ásamt fyrirtækjum í sveitarfélaginu tóku þátt. Við flögguðum regnbogafánum út um allt, það voru fræðslur í skólum og við fundum fyrir virkilega mikilli samstöðu, þetta var ótrúlega skemmtilegt. Þessari fyrstu hinsegin viku var hrint svolítið geyst af stað með litlum fyrirvara, við bara ákváðum þetta og fengum þessar frábæru undirtektir svo boltinn rúllaði mjög hratt. Núna höfum við árið til að undirbúa þá næstu svo ég held að hinsegin dagar í Árborg eigi bara eftir að vaxa og verða flottari þegar fram líða stundir,“ segir Dagbjört. En stefnt er á að fagna hinsegin dögum í Árborg næst vikuna 15.-21. janúar 2023.

Mæta mótlæti með ást og regnbogum

Forvarnarteymið fær reglulega áminningar um mikilvægi þess að fagna fjölbreytileikanum.„Hinsegin vikan gekk í heildina rosalega vel en það voru engu að síður unnin skemmdarverk á hlutum tengdum hinsegin vikunni og við heyrðum háværar mótmælaraddir sem sýna bersýnilega hvað það er rosalega mikil þörf fyrir þetta, mótlætið styrkti okkur bara þeim mun meira í að gera betur næst og minnti okkur á hvers vegna við þurfum að gera þetta. Í minni vinnu, bæði með félagsmiðstöð og ungmennahús þurfum við að vera til staðar fyrir öll, til dæmis eru þar krakkar sem eru kannski að stíga sín fyrstu skref inn í hinsegin samfélagið og ég veit ekki betur en að það hafi ekkert hinsegin starf verið á Suðurlandi fyrr en við byrjuðum með hinsegin hittingana hjá okkur í ungmennahúsinu síðastliðið haust. Það er því stórt tækifæri fyrir sveitarfélagið að halda áfram að gera betur.

Vildi að öllum þætti hinsegin eðlilegt

Á sama tíma og við tölum um hvað hinsegin vikan er nauðsynleg þá vildum við auðvitað að hennar þyrfti ekki með, að hinseginleikinn þætti jafn eðlilegur og aðrir partar lífsins sem öll telja eðlilega og hafa alltaf gert. Við vildum að fólk þyrfti ekki að verða fyrir aðkasti, hatursorðræðu eða jafnvel hafa áhyggjur af því að verða skotið úti á götu einungis vegna þess að það elskar einhvern annan en þykir „eðlilegt“, hver ákveður hvað er eðlilegt? Þetta er blákaldur raunveruleiki svo margra sem tilheyra hinsegin samfélaginu víðsvegar um heiminn. Á mörgum stöðum er það mun verra en á Íslandi. Til að setja það í agnarlítið samhengi fyrir þau sem gera sér ekki grein fyrir umfangi hatursins sem fær að grassera í heiminum, þá var teiknimyndin Bósi Ljósár bönnuð í 14 löndum og í Bandaríkjunum hefur fólk tekið upp á því að vara gesti kvikmyndahúsa við vegna þess að í myndinni er stutt klippa þar sem hjón sjást kyssast. Það vill nefninlega svo til að þessi hjón eru tvær konur. Hinsegin barátta á ekki bara að vera barátta hinsegin samfélagsins, þetta á að vera barátta alls samfélagsins, við þurfum öll að standa saman. Ef við viljum búa í samfélagi þar sem öll eru velkomin þá þurfum við öll að taka þátt,“ segir Dagbjört að endingu.

Nýjar fréttir