8.4 C
Selfoss

Vatn í Listaseli

Vinsælast

Sýningin Vatn er opin Í Listaseli í ágúst. Á sýningunni eru nýleg náttúrutengd akrýlverk. Viðfangsefnið er leitin að logni, stillu eða friðsæld. Vatnið, leið þess og mikilvægi fyrir allt og allt. Hlustar þú á vatnið? Hvernig hljómar það í hverju verki? Verkið Spuni er þanki um hina náttúrulegu hringrás vatns og mannanna fléttur á þeirri ferð. Vöndum við okkur eins og fimt handverksfólk og berum virðingu fyrir efniviðnum og verðmæti hans?

Sigrún Jónsdóttir, Ásvelli í Fljótshlíð, er fædd árið 1970. Hún er frá Lambey, dóttir hjónanna Jóns „Jónda“ Kristinssonar og Ragnhildar Sveinbjarnardóttur og er yngst níu systkina. Eftir grunnskóla hóf hún þriggja ára nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð, en lokaárið tók hún í Fjölbrautarskóla Suðurlands 1990. Hún lauk námi úr málaradeild frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1997. Þriðja námsárið sitt þar nam hún sem skiptinemi við Háskólann í Granada á Spáni. Sigrún lauk B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 2004 og starfar hún sem kennari við Grunnskólann á Hvolsvelli. Sambýlismaður hennar er Jón Valur Baldursson og eiga þau tvo syni, Matthías, f. 2001 og Elías Pál, f. 2005.

Sigrún var valin sveitarlistamaður Rangárþings eystra árið 2014 og var það í fyrsta sinn sem sú viðurkenning var veitt.  Sigrún hefur meðal annars haldið námskeið, sett upp sýningar, myndskreytt og gert sviðsmyndir fyrir leiksýningar. Opið þri. – sun. 11 -18, lokað á mánudögum. Verið velkomin.

Nýjar fréttir