9.5 C
Selfoss

Gramsað í gömlum nótum í Bókakaffinu á Selfossi

Vinsælast

Laugardaginn 13. ágúst kl. 17:00 verða fyrri tónleikarnir af tvennum í Bókakaffinu á Selfossi og bera þeir heitið Gramsað í gömlum nótum.

Söngvararnir María Sól Ingólfsdóttir, sópran og Gunnlaugur Bjarnason, barýton munu syngja lög upp úr nótum sem Bókakaffinu hafa áskotnast í gegnum árin.  Einar Bjartur Einarsson, leikur með þeim á píanó. Nóturnar sem sungið er uppúr eru mikill fjársjóður og geyma mikla sögu. Í þeim má finna kunn verk og týndar perlur, allt frá þjóðlögum til söngleikjalaga. Elín Gunnlaugsdóttir, tónskáld og bóksali kynnir verkin og fjallar um nóturnar. Aðgangur er ókeypis og öll eru þið velkomin á meðan húsrúm leyfir. Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Suðurlands

Síðari tónleikarnir verða 27. ágúst og þá koma fram Halla Marínósdóttir, mezzósópran og Birgir Stefánsson, tenór. Einar Bjartur Egilsson leikur með þeim á píanó.

Um listamennina sem koma fram 13. ágúst.

María Sól Ingólfsdóttir er sópran. Hún er fædd og uppalin á Engi í Laugarási í Biskupstungum. Hún hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum, óperum og hátíðum á sviði klassískrar- og samtímatónlistar seinustu ár. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2019 með BMus gráðu í klassískum söng. Hún stundaði söngnám veturinn 2019-’20 í Konunglega tónlistarháskólans í Den Haag í Hollandi og hefur seinasta árið sótt einkatíma hjá Janet Haney og Peter Knapp í London. María Sól hlaut Grímuna sem söngvari ársins 2021 fyrir
hlutverk sitt í sýningunni Ekkert er sorglegra en manneskjan á Íslensku sviðslistaverðlaununum. María Sól trúir því að tónlist sé galdur.

Gunnlaugur Bjarnason er barítónsöngvari. Hann ólst upp á Selfossi þar sem hann steig sín fyrstu skref í tónlistinni við Tónlistarskóla Árnesinga en lauk síðan framhaldsprófi í söng frá Menntaskóla í tónlist (MÍT) árið 2020. Hann leggur nú stund á meistaranám í sama fagi við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi. Seinna í þessum mánuði  leikur Gunnlaugur sitt fyrsta óperuhlutverk í uppsetningu á óperunni Mærþöll eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Árið 2020 vann Gunnlaugur fyrstu verðlaun í söngvarakeppninni Vox Domini og hlaut nafnbótina Rödd ársins sem og sérstök aukaverðlaun fyrir flutning á lagi eftir staðartónskáld keppninnar, Gunnstein Ólafsson.

Einar Bjartur Egilsson hóf píanónám 7 ára í Tónlistarskólanum í Reykjahlíð við Mývatn. Síðar fluttist hann til Reykjavíkur og stundaði nám í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Guðríði St. Sigurðardóttir og Önnu Málfríði Sigurðardóttur. Haustið 2010 hóf hann nám í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté og útskrifaðist þaðan vorið 2013. Í janúar það ár lék hann einleik í píanókonsert F. Poulencs með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Frá 2013 – 2015 stundaði hann meistaranám í Konservatoríinu í Maastricht, Hollandi hjá dr. Katiu Veekmans. Í desember 2014 hlaut hann styrk úr Minningarsjóði um Birgi Einarsson. Einar hefur samið tónlist fyrir nokkrar stuttmyndir t. d. þýsku myndina Windspiele og síðla árs 2015 gaf hann út sína fyrstu hljómplötu með eigin tónsmíðum sem nefnist Heimkoma. Hann hefur spilað á tónlistarhátíðum í Hollandi og á Íslandi og starfað með kórum bæði þar og hér heima. Síðan árið 2016 hefur Einar starfað sem píanókennari og meðleikari við Tónlistarskóla Árnesinga en nú nýverið einnig við Tónskóla Sigursveins, Söngskólann í Reykjavík og Söngskóla Sigurðar Demetz. Einar hefur haldið tónleika reglulega með ýmsum tónlistarmönnum ásamt því að spila einleik annað slagið, nú síðast í Beethoven tónleikaröð í Salnum. Nýlega gaf hann út tvær hljómplötur með píanóverkum eftir svissneska tónskáldið Frank Baumann og er þessa dagana að leggja lokahönd að útgáfu nýrrar breiðskífu með eigin tónlist.

Nýjar fréttir