7.1 C
Selfoss

Garðyrkjan er mitt golf

Vinsælast

Hjónin Helga R. Einarsdóttir og Sigurdór Karlsson á Selfossi hlutu um helgina viðurkenningu fyrir fallegasta garðinn í Árborg og það í annað sinn.

Sigurdór reisti þeim hús við Rauðholt 9 og þau fluttu þar inn árið 1967 en hann hafði slitið barnsskónum á Selfossi. Helga ólst upp í garðyrkjustöð í Hrunamannareppi og kom þar af leiðandi með góða þekkingu á garðyrkjustörfum inn í þeirra búskap sem hefur vafalaust haft einhver áhrif á framhaldið.
Hafa þau hjón hlúð vel að garðinum sínum alla tíð og fengu fyrir það viðurkenningu fyrir 31 ári síðan, árið 1991. „Þá var það frekar nýr garður, núna myndi þetta eflaust teljast gamall garður og ýmislegt hefur breyst,“ segir Helga.

Lykillinn að fallegum garði segir Helga að sé áhugi og þolinmæði.„Ég veit um marga garða hérna á Selfossi sem eru miklu flottari og ættu engu að síður að fá viðurkenningar, en ég lít eiginlega á þetta meira sem viðurkenningu fyrir þrautsegjuna og þvermóðskuna í fjölda ára,“ segir Helga létt í bragði.

Helga lærði heilmikið af því að hafa plöntusölu í garðinum sínum í 20 ár. „Ég held að súluaspirnar hafi vakið athygli, við fluttum þær inn frá Noregi á sínum tíma og ég veit ekki betur en að ég sé sú eina sem hef ræktað þær hér á Selfossi. Ég hef alið upp og látið frá mér tugi eða hundruði súluaspa sem vaxa nú upp í fjöldamörgum görðum hér í bæ og víðar.

Í garðinn okkar var byrjað að planta trjágróðri árið 1968 og margt af því lifir enn góðu lífi og fjöldamargt hefur bætst við í áranna rás.Garðyrkjan er mitt áhugamál, trjágróður kannski meira en annað. Þetta er bara mitt golf og mín líkamsrækt, fyrir utan það að ég syndi smá. Það er alveg sama hvaða áhugamál þú hefur, það þarf að sinna þeim.“ Samkvæmt Helgu er garðyrkjan ekki beint áhugamál Sigurdórs.  „Hann gerir allt sem þarf að gera, hann slær, smíðar og klippir, er nýbúinn að mála húsið en ég geri bara svona dund sem enginn tekur eftir.“

Nýliðum í garðyrkju ráðleggur Helga að fara ekki of geyst af stað, taka sér ekki of mikið í fang áður en þeir vita hvort þeir hafi nokkuð gaman að þessu.„Mér finnst skipta miklu máli þegar fólk eignast hús með lóð ætti það að hanna garðinn sinn sjálft, eftir sínum hugmyndum og góðri ráðgjöf. Ekki kaupa alla vinnu til verksins, það verður oft lítið úr því þegar fram í sækir. Skynsamlegra væri að bæta smátt og smátt við eftir efnum og ástæðum. Fólk er þá að sinna þessu því það hefur áhuga. Ef farið er of geyst geta garðeigendur lent í hræðilegum vandræðum seinna meir, þegar allt er fullsprottið og engu hefur verið sinnt.

Garðurinn verður opinn gestum á fimmtudaginn 11. ágúst fyrst kl.17.00 og síðan kl. 20.00. Hvort sem það rignir eldi eða brennisteini, eru gestir velkomnir. Reyndar eru aldrei lokuð hlið á þessum garði og oft einhver heima,“ segir Helga að lokum.

Garðurinn í Rauðholti 9. Myndin hægra megin var tekin þann 9. ágúst 2022 en sjá má að tignarlegar súluaspirnar gefa garðinum virkilega fallegt yfirbragð. Sú til vinstri birtist á forsíðu Dagskrárinnar þann 11.júlí 1991, þegar þau hjón unnu fyrst til verðlauna fyrir þennan fallega garð.
Þessi frétt birtist í Dagskránni þann 18. júlí 1991.

Hluti garðsins fer undir trjáplönturækt.
Það er fallegt um að litast í gróðurhúsinu í Rauðholti 9.
Rauðholtið tilheyrir rauða hverfinu á meðan hátíðin Sumar á Selfossi stendur yfir.

 

Nýjar fréttir