2.8 C
Selfoss

Frábær árangur á Gautaborgarleikunum

Vinsælast

Stór hópur frjálsíþróttakeppenda af sambandssvæði HSK tók þátt í Gautaborgarleikum sem haldnir voru í 25. sinn á Ulleví- leikvangingum í Gautaborg dagana 17.-19.júní sl. Þátttakan í mótinu er skemmtileg og góð upplifun fyrir iðkendurna sem margir eru að stíga sín fyrstu skref á alþjóðlegu móti.

Árangurinn var frábær og voru átta verðlaunapeningar hengdir um háls okkar keppenda, auk þess slógu þau 16 HSK met auk margra persónulegra bætinga.

16 ára stúlkur af HSK-svæðinu, f.v. Edda Margrét Magnúsdóttir (Garpi), Guðlaug Birta Davíðsdóttir ( Garpi), Þórkatla Loftsdóttir (Hrunamönnum), Þórhildur Arnarsdóttir (Hrunamönnum), Álfrún Diljá Kristínardóttir (Selfossi) og Hanna Dóra Höskuldsóttir (Selfossi). 
16 ára stúlkur af HSK-svæðinu, f.v. Edda Margrét Magnúsdóttir (Garpi), Guðlaug Birta Davíðsdóttir ( Garpi), Þórkatla Loftsdóttir (Hrunamönnum), Þórhildur Arnarsdóttir (Hrunamönnum), Álfrún Diljá Kristínardóttir (Selfossi) og Hanna Dóra Höskuldsóttir (Selfossi).

Ívar Ylur Birkisson (14 ára) tvíbætti Íslandsmetið í 80 metra grindahlaupi, fyrst í undanrásum á tímanum 11,86 sek. Hann bætti svo um betur í úrslitum á nýju Íslandsmeti og hljóp á 11,51 sek og varð í öðru sæti á leikunum í þeirri grein.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson (14 ára) vann til þrennra verðlauna á mótinu. Hann  náði þeim frábæra árangri að vinna kúluvarp með góðri bætingu er hann varpaði kúlunni 13,00m, hann vann til silfurverðlauna í spjótkasti  á nýju HSK meti er hann kastaði spjótinu 50.86m og í hástökki stórbætti hann sig með því að vippa sér yfir 1.79 og vinna til silfurverðlauna.


15 ára piltar af HSK svæðinu, Rökkvi Þeyr Guðjónsson, (Heklu), Emil Vilbergsson (Hrunamönnum), Ágúst Ingi Steinsarsson (Heklu)  og Kristófer Árni Jónsson (Heklu).

Daníel Breki Elvarsson (16 ára) náði þeim glæsilega árangri að bæta sig um marga metra í spjótkasti og sigra á nýju HSK meti þegar hann kastaði spjótinu 60,48m.  Bryndís Embla Einarsdóttir (13 ára) stóð sig vel og vann til tvennra verðlauna, hún kastaði spjótinu 34,95metra og vann til silfurverðlauna auk þess sem hún bætti sig í hástökki þegar hún stökk yfir 1.54m og krækti sér í bronsið.  Vésteinn Loftsson varð í 3. sæti í kúluvarpi 14 ára pilta er hann kastaði kúlunni 11,17m.
Eydís Arna Birgisdóttir (15 ára) hljóp 300m grindahlaup á tímanum 46,47sek og setti í leiðinni fjórfalt HSK met en hún bætti metið í flokkum 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára.  Ásta Dís Ingimarsdóttir (15 ára) hljóp 2000m hlaup á tímanum 7:25,60 mín og setti fimmfalt HSK met í leiðinni, hún bætti metið í flokkum 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára, 20-22 ára og í kvennaflokki.   Álfrún Diljá Kristínardóttir (16 ára) bætti eigið HSK met í sleggukasti í flokki 16-17 ára er hún kastaði sleggjunni 49,34m.  Martin Patryk Srichakham  (17 ára) setti HSK met í 2.000 metra hindrunarhlaupi á 8;27,83 mín. Helga Fjóla Erlendsdóttir (13 ára) bætti metið í 60 m grindahlaupi í flokki 13 ára á 68 cm grindur þegar hún hljóp á 10,67 sek.

Þorvaldur Gauti Hafsteinsson keppti á mótinu fyrir Helsingborg og hljóp 800m á tímanum  2:06, 93 mín  sem er langt undir HSK metinu en hann hefur æft þar það sem af er þessu ári en kemur heim í sumar. 

Nýjar fréttir