1.1 C
Selfoss

Samfélag án fordóma

Vinsælast

Ímyndunarafl. Manneskjan býr yfir þeim hæfileika að geta látið sig dreyma, séð fyrir sér hluti hvort sem þeir eru bundnir ótta eða von.

Ímyndum okkur samfélag án fordóma. Gæti reynst sumum erfitt þar sem þeir hafa jú fylgt mannkyninu svo lengi sem fólk man. En, prufið!

Fordómar eru í mörgum tilfellum byggðir á fáfræði og ráð við að takmarka þá og vonandi síðar meir, útrýma, er aukin fræðsla. Fræðsla sem leiðir af sér skilning og er í takt við tíðarandann. Fræðsla sem víkkar sjóndeildarhringinn og veitir fjölbreytileikanum aukið pláss.

Við þurfum ekki að ímynda okkur fjölbreytileikann því hann er staðreynd. Það er staðreynd að mótun einstaklingsins er bundin erfðum og umhverfi, sem gefur að skilja er jafn mismunandi eins og við erum mörg. Við á Íslandi búum við þau forréttindi að eiga öfluga heilsuvernd og öflugt skólakerfi sem fylgir okkur fyrstu ár ævinnar og þar til við verðum að fullvaxta einstaklingum. Hvoru tveggja fylgir lögum sem hafa mótast út frá samfélagslegum gildum og eiga að vera leiðarvísir í þróun þess og tryggja að öll njótum við sumu réttinda. Viljum við fordómalaust samfélag þarf sú fræðsla að eiga sér stað frá upphafi, jafnvel áður en einstaklingurinn lítur dagins ljós.

Fyrirbyggjandi aðgerðum gegn fordómum er hægt að finna fastan sess víða, t.d. hjá mæðravernd, í foreldrafræðslu, hjá dagforeldrum, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, háskólum, íþrótta- og frístundastarfi, í fjölmiðlum og á vinnumarkaði. Séu aðgerðirnar sýnilegar og þeim framfylgt, geta þær borið árangur. Árangur sem smátt og smátt verður keðjuverkandi hringrás sem leiðir af sér fróðari þjóðfélagsþegna sem mæta fjölbreytileikanum með skilningi og af virðingu. Fordómafull hugsun lítur lægra haldi og máltækið sem segir að ekki sé hægt að kenna gömlum hundi að sitja mun jafnvel heyra sögunni til.

Ég skrifa þetta því ég er döpur. Kveikjan var skotárásin sem átti sér stað í miðbæ Oslóar um helgina, þar sem vopnin beindust að fólki sem fagnaði fjölbreytileikanum í tengslum við Pride hátíðina 2022. Fyrr um daginn hafði ég séð myndir frá gömlum vinnufélögum í leikskólanum sem ég vann í í Noregi, þar sem þau héldu Regnbogahátíð á lokadegi fyrir sumarlokun. Þar hefur mikil vinna átt sér stað er kemur að kynheilbrigði og réttindum barna út frá Barnasáttmálanum. Boðskapur leikskólans er að allir eiga rétt á að vera eins og þau eru, óháð uppruna, útliti, trúarbrögðum og tilfinningum og að hver og einn fái upplifað stolt tengt sínum eiginleikum. Boðskapurinn breiðist út. Foreldrar taka með sér hugarfarið til vina og ættinga, á vinnustaðinn. Börnin taka hann með sér út lífið. Náungakærleikurinn er áþreyfanlegur og því er sorgin við fréttir gærdagsins svo sterk.

Svo lengi sem þú særir ekki sjálfa/sjálfan/sjálft þig né aðra – njóttu þess að vera þú, hvernig sem þú velur að lifa lífinu.

Ég hvet þig til að líta í eigin barm – kanna hvort að innra með þér leynist fordómar og vona þá að þú finnir leið til að afla þér þekkingar til að sporna gegn þeim.

Gangi þér vel! <3

Tinna Björg Kristinsdóttir

Nýjar fréttir