1.7 C
Selfoss

Undirbúningur fyrir landsmót gengur frábærlega

Vinsælast

Landsmót hestamanna fer af stað á sunnudaginn 3. júlí á Rangárbökkum á Hellu og er þetta 24. Landsmótið í röðinni. Mikil eftirvænting hefur verið eftir mótinu enda átti það að vera á Hellu fyrir tveimur árum en var frestað vegna Covid-heimsfaraldursins.

„Undirbúningur gengur frábærlega og það er allt á góðu róli. Það er mikill gangur í miðasölunni og finnum við fyrir miklum áhuga frá samlöndum okkar og erlendis frá en við eigum von á mikið af erlendum gestum. Við höfum í nógu að snúast við að svara fyrirspurnum, t.d. varðandi gistingu. Það er gífurlegur áhugi á þessu móti,“ segir Magnús Benediktsson, framkvæmdastjóri Landsmótsins.

Mótið hefst á forkeppni barna og unglinga á sunnudeginum ásamt dómum kynbótahrossa.

„Það eru gríðarlega sterk hross og knapar að koma inn á þetta mót og svakalegur styrkleiki á leiðinni. Þetta verður algjör veisla fyrir hestaunnendur. Við erum með hátt í 900 hross skráð til keppni,“ segir Magnús.

„Skemmtun á sterum“

Öll ættu að geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi á Landsmóti , en þar má t.d. nefna fjölbreytta fjölskylduskemmtun á laugardeginum þar sem meðal annars Ávaxtakarfan, BMX bros og Latibær láta sjá sig. „Á fimmtudeginum sjá Stefanía Svavars, Gunni Óla og Íris í Buttercup um að skemmta, á föstudeginum verða þau Páll Óskar, Regína Ósk og Helgi Björns og svo á laugardeginum verður ball með Pöpunum, þannig að þessi skemmtidagskrá verður á sterum,“ segir Magnús hress í bragði.

Einnig verður mjög fjölbreytt úrval af veitingum til sölu á svæðinu þannig að fólk ætti að eiga auðvelt með að seðja hungrið.

Við hvetjum öll til að gera sér ferð á Landsmótið og upplifa ógleymanlega stemningu.

Nýjar fréttir