13.4 C
Selfoss

Þingvellir viðurkenndir sem fyrsta Varðan á Íslandi

Vinsælast

„Þingvallaþjóðgarður er afskaplega vel að þessari viðurkenningu kominn,“ segja þau Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra sem í dag veittu þjóðgarðinum á Þingvöllum viðurkenningu sem fyrstu Vörðuna á Íslandi.

Ráðherrarnir afhjúpuðu heiðursmerki Vörðu og fengu kynningu á Búðarslóð, nýrri afþreyingar- og fræðsluleið á Þingvöllum.

Fyrsta Varðan

Með Vörðu skuldbindur umsjónaraðili áfangastaðar ferðamanna sig til að vera til fyrirmyndar við stjórnun og umsjón hans og að við áframhaldandi þróun sé sífellt unnið að sjálfbærni á öllum sviðum. Ráðherrarnir kynntu einnig að um næstu áramót geti staðir óháð eignarhaldi eða umsjón sótt um að fara í ferli til þess að verða Vörður og hljóta slíka viðurkenningu.

„Það er ánægjulegt að fá að verðlauna fyrstu Vörðuna einmitt á þessum tíma, nú þegar sólin stendur sem hæst og faðmur landsins stendur opinn sem aldrei fyrr fyrir áhugasömum gestum. Ég hef þá framtíðarsýn að Vörður verði að finna í öllum landshlutum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

„Það er mikilvægt að framsýni ráði för þegar ákveðið er hvernig við viljum haga málum við fjölsótta ferðamannastaði í náttúru Íslands og með samstarfsverkefninu Vörðu er  lögð er áhersla á heildstæða áfangastaðastjórnun. Meðal framtíðarmarkmiða sem ég horfi til er að ferðamenn komist um landið okkar á sem vistvænastan hátt og, þess vegna er ánægjulegt að í viðmiðum Vörðu er einmitt kveðið á um hraðhleðslustöðvar þar sem hægt er að koma því við,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Hvað er Varða?

Vörður eru merkisstaðir á Íslandi sem teljast einstakir á lands- og/eða heimsvísu. Meginaðdráttarafl þeirra eru náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.

Áfangastaðirnir eru vel þekktir, hluti af ímynd landsins, fjölsóttir og hægt að heimsækja þá allt árið um kring.
Heitið byggir á þeim fjölmörgu vörðum sem finnast í íslenskri náttúru. Vörður geyma sögu og arfleifð. Þær eru hlaðnar úr staðarefni, tengjast umhverfinu, vísa veginn í átt að áfangastað og mynda leiðakerfi.

Sem stendur eru þrír afar fjölsóttir en ólíkir staðir í svokölluðu prufuferli Vörðu auk Þingvalla sem hefur nú lokið því ferli. Það eru Gullfoss, Geysir og Jökulsárlón, sem eru einnig staðir í umsjón ríkisaðila. Þetta eru einna fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins, en þeir eru misjafnlega staddir hvað þróun varðar en eiga það sameiginlegt að vera áfangastaðir í eigu ríkisins.

Ný rós í hnappagat Þingvalla

Þingvallaþjóðgarður er vel að þessari viðurkenningu kominn. Auk þess að vera einn elsti og fjölsóttasti ferðamannastaður landsins er þjóðgarðurinn á heimsminjaskrá Menningar-málastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.  Í slíkri skráningu felst mikil ábyrgð gagnvart því að viðhalda einstöku gildi staðarins til framtíðar fyrir alla heimsbyggðina. Það hefur sannarlega tekist vel á Þingvöllum, svo vel að það er ærin ástæða fyrir nýrri rós í hnappagatið með viðurkenningu Vörðu.

 

Nýjar fréttir