11.1 C
Selfoss

Afhjúpun Egils

Vinsælast

Margt var um manninn í miðbæ Selfoss þann 16. júní, þegar stytta af Agli Thorarensen, frumkvöðli og kaupfélagsstjóra, var afhjúpuð. Halla Gunnarsdóttir, myndhöggvari sá um styttusmíðina og stóð áhugamannafélagið Styttubandið fyrir uppsetningu styttunnar.

Lúðrasveit Selfoss setti athöfnina og í kjölfarið tók Karlakór Selfoss nokkur lög. Guðni Ágústsson, Ólafur Ragnar Grímsson og nýkjörinn bæjarstjóri í Árborg, Fjóla Kristinsdóttir fluttu ávörp. Að endingu söng Karlakór Selfoss lagið hraustir menn ásamt Kristjáni Jóhannssyni óperusöngvara áður en Grímur Arnarson, langafabarn Egils sagði nokkur vel valin orð um langafa sinn og fylgdi svo 5 af yngstu afkomendum Egils að styttunni, eða draugnum eins og börnin kölluðu hann fyrir afhjúpun.

Halla var því miður ekki viðstödd afhjúpunina en hún er búsett í Lundúnum, þaðan sem hún fylgdist með afhjúpuninni í gegnum myndsímtal við vinkonu sína. „Þetta var mjög skemmtilegt ferli, ég vann útfrá ljósmyndum af honum og tók nokkra mánuði í undirbúningsvinnu þar sem ég sýndi Styttubandinu tillögu að verkinu, þeir voru með hugmyndir að því hvernig styttan ætti að líta út. Ég gerði litla styttu og sýndi þeim og byrjaði svo þetta ferli en verkið var gert í Hampshire á Englandi.“

Egill stundaði verslunarnám í Danmörku 1912-14 og verslunarstörf 1915 og var til sjós tvö ár, ásamt námi við Stýrimannaskólann. Egill flutti að Sigtúnum við Ölfusárbrú 1918 og átti eftir að verða einn helsti áhrifamaður í atvinnumálum og pólitík Selfyssinga og Suðurlands á síðustu öld. Hann starfrækti verslun að Sigtúnum til 1930, beitti sér þá fyrir stofnun kaupfélags, seldi verslun sína nýstofnuðu Kaupfélagi Árnesinga, var kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga og stjórnarformaður Mjólkurbús Flóamanna í þrjá áratugi, sat í mjólkursölunefnd, mjólkurverðlagsnefnd, beitti sér fyrir kaupum kaupfélagsins á Laugardælum og kom þar upp stórbúskap, beitti sér fyrir hafnargerð og útgerð í Þorlákshöfn, var formaður Meitilsins og sat í stjórn Mjólkursamsölunnar og stjórn Osta- og smjörsölunnar, auk stjórnarsetu í öðrum fyrirtækjum og félögum.

Eiginkona Egils var Kristín Daníelsdóttir og eignuðust þau fjögur börn, Grím, Erlu, Benedikt og Jónínu.

„Þetta er stórbrotinn dagur, þetta er búið að taka mörg ár að undirbúa. Sigtúnamenn hafa verið okkur góðir og ráðamenn Árborgar og náttúrulega allir þeir sem gáfu peninga til þess að þetta væri hægt. Egill var foringi að guðs náð,“ segir Guðni Ágústsson, formaður Styttubandsins að lokum.

Myndirnar tók Helga Guðrún Lárusdóttir, blaðamaður Dagskrárinnar

Nýjar fréttir