5.6 C
Selfoss

Bréf til bæjarstjórnar Árborgar

Vinsælast

Ráðhúsið okkar er eitt af glæsilegustu byggingum á Selfossi. Það var reist árið 1946 sem verslunar og skrifstofuhús Kaupfélags Árnesinga sem Egill Thorarensen stýrði frá stofnun þess 1930 og til dánardægurs hans 1961. Húsið er reist af þeim myndarskap sem einkenndi öll verk Egils, enda höfum við nokkrir áhugamenn staðið fyrir fjársöfnun til að reisa af honum styttu sunnan við hringtorgið sunnan við Ölfusárbrú. Hún verður afhjúpuð 16. júní nk. Þetta hús kaupfélagsins hefur nú um árabil verið ráðhús sveitarfélagsins og hýsir bæjarskrifstofur, Bókasafn Árborgar og héraðsskjalasafnið. Fyrir framan húsið, götumegin er breið stétt. Stéttin er með þremur hálfkringlum svo sem mittishá og milli þeirra eru tvískiptar tröppur. Útlitið á þessum kringlum og tröppum er hörmulegt og þarf ekki að lýsa því frekar þar sem þessi hörmung blasir við öllum. Þetta er eins og skemmd tönn í fríðu andliti miðbæjarins, sem nú er að taka á sig glæsilegri mynd með reisulegum byggingum Leós Árnasonar. Ágæta bæjarstjórn, látið nú gera við þessar skemmdir í sumar svo ásýnd miðbæjarins verði okkur öllum til sóma.

Fram fram fylking!

Sigurjón Erlingsson
í sveitarstjórn 1974-1986

Nýjar fréttir