1.7 C
Selfoss

Staða íþróttauppbyggingar í Hveragerði

Vinsælast

Þann 22. febrúar sl. fauk Hamarshöllin af grunni sínum í heilu lagi í miklum vindi. Í kjölfar skýrslu sem Verkís var fengin til að gera fyrir bæjarstjórn ákvað fyrrum meirihluti Sjálfstæðisflokksins á bæjarstjórnarfundi 13. apríl sl. að panta nýtt loftborið íþróttahús til að blása upp á grunni Hamarshallarinnar og hafnaði að skoða aðra hagkvæma valkosti. Skrifað var undir tilboð frá slóvenska framleiðandanum Duol um kaup á nýjum dúk þann 26. apríl sl. Síðan hefur komið í ljós að fyrrum meirihluti Sjálfstæðisflokksins virðist aldrei hafa pantað nýjan dúk frá Duol og aldrei var gerður samningur um slíkt, né liggja fyrir nein gögn um málið í málakerfi bæjarins. Óljóst er hvers vegna þáverandi bæjarstjóri ákvað að fylgja ekki eftir ákvörðun þáverandi meirihluta Sjálfstæðisflokksins um að panta nýjan dúk frá Duol. Þó er ljóst að upplýsingar sem koma fram í frétt frá fyrrum bæjarstjóra á vef bæjarins frá 28. apríl sl. um að samningur hafi verið undirritaður um kaup á nýjum dúk frá Duol er ekki rétt þar sem enginn samningur virðist liggja fyrir, heldur aðeins tilboð sem hefur einungis verið undirritað af hálfu Hveragerðisbæjar, en ekki Duol. Tilboðið var þar að auki undirritað af hálfu Hveragerðisbæjar eftir að gildistími þess rann út. Þá eru upplýsingar sem koma fram í frétt frá fyrrum bæjarstjóra frá 21. maí sl. um að hægt sé að afpanta dúkinn jafnframt röng þar sem ekki er hægt að afpanta það sem aldrei hefur verið pantað. Í undirrituðu tilboði frá Duol kemur fram að greiða þurfi 70% af upphæðinni fyrirfram þegar dúkur er pantaður og 30% fyrir afhendingu. Aldrei hafa þessi 70% verið greidd né virðist fyrrum meirihluti hafa hugað að fjármögnun á uppbyggingu Hamarshallarinnar. Því er ljóst að upplýsingar frá fyrrum meirihluta Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóra hans um pöntun og samningagerð á dúk frá Duol var ekki rétt og byggði ekki á neinum gögnum.

Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar kölluðu eftir upplýsingum um málið og stöðu þess frá Hveragerðisbæ strax að loknum kosningum þann 16. maí en þá kom í ljós að nánast engin gögn lágu fyrir um málið. Í ljósi þess var kallað eftir upplýsingum og gögnum frá fyrrum bæjarstjóra en erindinu var ekki svarað. Í ljós kom að nánast engin gögn um málið lágu fyrir í málakerfi bæjarins þrátt fyrir lagaskyldu um skráningu og varðveislu slíkra málsgagna. Að beiðni meirihlutans sendi staðgengill bæjarstjóra erindi til Duol til að kalla eftir upplýsingum um stöðu mála þar sem þær voru ekki í málakerfi bæjarins og ekki var hægt að fá þær frá fyrrum bæjarstjóra. Þar með talið vantaði upplýsingar um afhendingartíma á nýjum dúk sem skiptir miklu máli um hvort að mögulegt sé að blása upp nýtt loftborið íþróttahús fyrir veturinn. Samkvæmt sérfræðingum hjá Hveragerðisbæ þarf að blása húsið upp í síðasta lagi í ágúst en það má aðeins gera í mjög stilltu veðri. Ef dúkurinn berst eftir þann tíma er ekki víst að hægt verði að koma húsinu upp fyrir veturinn vegna þess að ekki er hægt að treysta á gott veður. Í þessu samhengi skipta miklu þær 6-8 vikur sem hafa tapast vegna aðgerðarleysis fyrrum meirihluta Sjálfstæðisflokksins í málinu. Eins og flestir Hvergerðingar þá héldu bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar að málið hefði verið sett í feril af fyrrum meirihluta Sjálfstæðisflokksins og að dúkurinn frá Duol væri þegar í framleiðslu. Því miður reyndist það ekki rétt. Í raun hefur þessi mynd sem hér hefur verið lýst verið að dragast upp á síðustu dögum en upplýsingar um stöðuna hefur skort og þess vegna hefur þurft að kalla eftir gögnum frá Duol í Slóveníu. Í gær, þann 6. júní, barst svar frá Duol þar sem fram kemur að aldrei hafi verið gengið frá samningi um pöntun á dúknum og því hafi hvorki hönnun né framleiðsla farið af stað. Pöntun á efni í dúkinn sé í byrjunarfasa en vegna stöðu á heimsmarkaði getur það tekið tíma. Þá kemur fram í svari Duol að miðað við stöðuna sé möguleiki að afhenda nýtt loftborið íþróttahús úr verksmiðjunni í byrjun október. Þá á eftir að flytja dúkinn til Íslands og koma honum upp. Miðað við þessar upplýsingar er ljóst að ekki verður komin upp ný Hamarshöll fyrr en í fyrsta lagi í lok október, líklega síðar, hvaða leið sem farin verður í uppbyggingu hennar, hvort sem keypt er loftborið íþróttahús eða fjárfest í hagstæðu stálgrindarhúsi.

Rétt er að nefna að ef málsmeðferðin hefði verið vönduð strax í upphafi þar sem aðrir hagkvæmir kostir hefðu verið kannaðir og ákvörðun verið tekin út frá þeirri skoðun væri staðan líklega önnur en nú. Slík vinnubrögð hefðu verið fremur til þess fallin að sátt og samstaða stæði um ákvörðun um uppbyggingu Hamarshallarinnar.

Ábyrgðin á þessari alvarlegu stöðu sem upp er komin liggur alfarið hjá fyrrum meirihluta Sjálfstæðisflokksins en ábyrgðin á því hvað nú gerist í framhaldinu liggur hjá núverandi meirihluta.

Meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar leggur mikla áherslu á að leitað verði allra leiða til að tryggja íþróttastarf Hvergerðinga næsta vetur og að það verði gert í samstarfi við Íþróttafélagið Hamar og minnihlutann í bæjarstjórn ef hann kýs svo. Í ljósi stöðunnar er því rétt að taka ákvörðun út frá því hvað er best fyrir íþróttastarf í Hveragerði til lengri og skemmri tíma. Það er markmið núverandi meirihluta að ný Hamarshöll verði komin upp sem allra fyrst.

Möguleikarnir í stöðunni eru því eftirfarandi:

  1. Að koma upp loftbornu íþróttahúsi með samningi við Duol. Samkvæmt upplýsingum frá Duol er fyrsti mögulegi afhendingartími úr verksmiðju í byrjun október. Þó þarf að afla nánari upplýsinga frá Duol, s.s. um kostnað, hvort að tilboð sem rann út í apríl standi enn, flutningstíma og kröfur sem Íþróttafélagið Hamar gerði um aðstöðu. Núverandi meirihluti hefur þegar sett af stað vinnu meðal starfsmanna bæjarins að afla þessara upplýsinga.
  2. Samhliða hefur meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar óskað tilboða frá tveimur norskum aðilum á stálgrindarhúsum, þ.e. frá Besthall og MSO Sport & Invest. Húsin frá Besthall eru einangruð stálgrindarhús sem klædd eru með dúk en húsin frá MSO Sport & Invest eru stálgrindarhús sem eru einangruð með yleiningum. Teikningar af sökkli Hamarshallarinnar hafa verið sendar til þessara aðila sem skoða samhliða tilboðsgerð hvort að hægt sé að setja stálgrind á grunninn og hvort styrkja þurfi hann. Óskað hefur verið eftir upplýsingum um hvenær hægt verði að koma umræddum húsum upp.

Um leið og fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir í málinu mun meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar boða til aukabæjarstjórnarfundar til að taka ákvörðun hratt og vel um uppbyggingu Hamarshallarinnar og mun bæjarstjórn vinna náið með Íþróttafélaginu Hamri vegna málsins. Vonast er til þess að þessar upplýsingar liggi fyrir á næstu dögum og verði þá hægt að koma málinu áfram.   Það er von meirihlutans að allir sem að málinu hafa komið, Íþróttafélagið Hamar og öll bæjarstjórn muni vinna saman að því að leysa úr þessari alvarlegu stöðu sem upp er komin.

Til nánari glöggvunar á gangi málsins og gagnaöflunar um uppbyggingu Hamarshallarinnar er hér birt tímalína um málið:

  • febrúar 2022 – Hamarshöllin fýkur af grunni sínum í heilu lagi í miklum vindi.
  • mars 2022 – Bæjarstjórn ákveður að láta Verkís kanna fimm valkosti við uppbyggingu Hamarshallarinnar.
  • apríl 2022 – Bæjarfulltrúi Framsóknar óskar eftir upplýsingum um stöðu skýrslu Verkís. Bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis óskar eftir að fá upplýsingar frá Verkís sem fyrst svo að góður tími gefist til að skoða skýrsluna og fylgigögnin. Ítrekað 10. apríl þar sem meirihlutinn svaraði ekki.
  • apríl 2022 – Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar fá drög að skýrslu Verkís um uppbyggingu Hamarshallarinnar. Þar er þó aðeins gerð úttekt á tveimur kostum við uppbyggingu Hamrashallarinnar en ekki þeim fimm sem ákveðið var að skoða. Kostirnir tveir í skýrslu Verkís eru dýrasti kostur stálgrindarhúss og loftborið íþróttahús.
  • -13. apríl 2022 – Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar óska ítrekað eftir að skýrsla Verkís verði lögð fram til kynningar á fundi bæjarstjórnar 13. apríl þar sem ljóst sé að hún sé ófullgerð og aðrir kostir séu í stöðunni sem sé mikilvægt að skoða. Þessu er hafnað af meirihluta Sjálfstæðisflokksins.
  • apríl 2022 – Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar fá hluta af fylgigögnum með skýrslu Verkís send eftir ítrekaðar beiðnir.
  • apríl 2022 – Sjálfstæðisflokkurinn tekur ákvörðun um að kaupa nýtt loftborið íþróttahús og blása upp á grunni þess sem fauk þann 22. febrúar. Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar sitja hjá þar sem skýrsla Verkís er ófullgerð og mörgum spurningum er ósvarað í málinu og leggja til að málinu sé frestað um tvær vikur (sem Sjálfstæðisflokkurinn hafnar). Það kemur fram í máli Sjálfstæðisflokksins að það megi ekki bíða að panta nýjan dúk frá Duol.
  • apríl 2022 – Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar senda fyrirspurn til Duol og óska eftir upplýsingum um tilboð og samning við Hveragerðisbæ.
  • apríl 2022 – Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar ítreka fyrirspurn til Duol og óska eftir upplýsingum um tilboð og samning við Hveragerðisbæ.
  • apríl 2022 – Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis leggja fram fyrirspurn í bæjarstjórn um hvers vegna Verkís skilaði ófullgerðri skýrslu til bæjarstjórnar og hvers vegna hún hafi ekki verið unnin eftir ákvörðun bæjarstjórnar (að kanna fimm valkosti). Fyrrum bæjarstjóri svarar því að líklega hafi hann ákveðið það í samráði við Verkís og tæknideild Hveragerðisbæjar sem er í andstöðu við ákvörðun bæjarstjórnar.
  • apríl 2022 – Bæjarstjórn samþykkir undirskriftarsöfnun um að borgarafundur verði haldinn vegna Hamarshallarinnar.
  • apríl 2022 – Fyrrum bæjarstjóri birtir frétt á vef Hveragerðisbæjar um að samningur um kaup á dúk frá Duol hafi verið undirritaður. Síðar kemur í ljós að ekki var um samning að ræða heldur undirritað tilboð af hálfu Hveragerðisbæjar. Engar upplýsingar eru í tilboðinu um afhendingartíma.
  • apríl 2022 – Framkvæmdastjóri Duol í Slóveníu svarar fyrirspurn bæjarfulltrúa Okkar Hveragerðis og Framsóknar frá 16. apríl um að tilboð hafi verið sent til Hveragerðisbæjar þann 22. mars og það undirritað 26. apríl.
  • maí 2022 – Undirskriftum um ósk um borgarafund skilað til Hveragerðisbæjar. Nægilega margar undirskriftir fengust.
  • maí 2022 – Borgarafundur um Hamarshöllina haldinn í Skyrgerðinni.
  • maí 2022 – Sveitarstjórnarkosningar. Niðurstöður Okkar Hveragerði 39,6% og þrír bæjarfulltrúar, Framsókn 27,5% og tveir bæjarfulltrúar og Sjálfstæðisflokkurinn 32,8% og tvo bæjarfulltrúa. Ljóst að meirihluti Sjálfstæðisflokksins er fallinn.
  • maí 2022 – Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar kalla eftir upplýsingum um stöðuna á máli Hamarshallarinnar. Í ljós kemur að nánast engin gögn eru í málakerfi Hveragerðisbæjar um málið, engin samskipti við Duol og eingöngu undirritað tilboð af hálfu Hveragerðisbæjar.
  • maí 2022 – Fyrrum bæjarstjóri birtir frétt á vef Hveragerðisbæjar um að hann hafi verið í samskiptum við Duol og þar hafi komið fram að hægt sé að afturkalla pöntun á dúknum. Fréttin reynist röng þar sem dúkurinn virðist aldrei hafa verið pantaður og því ekki hægt að afpanta hann.
  • maí 2022 – Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar kalla eftir upplýsingum frá fyrrum bæjarstjóra um samskipti við Duol, einkum afritum af tölvupóstum, uppskriftum símtala og minnisblöðum um málið. Einnig var kallað eftir upplýsingum um afhendingartíma dúksins og hvort samningur hefði verið undirritaður og ef ekki hvort að drög um hann lægju fyrir. Bæjarstjóri svarar ekki erindinu og engin gögn berast.
  • maí 2022 – Nýr meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar tekur formlega við völdum í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar, sbr. 1. mgr. 15. gr. sveitarstjórnarlaga.
  • maí 2022 – Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar funda með skrifstofustjóra Hveragerðisbæjar og spyrja um gögn málsins um Hamarshöllina og samskipti og samninga við Duol. Í málakerfi bæjarins er ekki að finna nein samskipti við Duol um pöntun á dúk né að hægt sé að afpanta hann, sbr. frétt fyrrum bæjarstjóra á vef Hveragerðisbæjar 21. maí. Miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar virðist samningur aldrei hafa verið gerður við Duol og dúkurinn aldrei pantaður.
  • maí 2022 – Að beiðni meirihluta Okkar Hveragerðis og Framsóknar sendir skrifstofustjóri Hveragerðisbæjar erindi til Duol og kallar eftir upplýsingum og gögnum um samskipti við fyrrum bæjarstjóra (þar sem þau eru ekki til hjá Hveragerðisbæ), þ.m.t. um afhendingartíma og drög að samningi.
  • júní 2022 – Að beiðni meirihluta Okkar Hveragerðis og Framsóknar ítrekar byggingarfulltrúi Hveragerðisbæjar fyrirspurn til Duol og aftur 3. júní.
  • júní 2022 – Svör berast frá Duol þar sem fram kemur að aldrei hafi verið gengið frá samningi um pöntun á dúknum og því hafi hönnun á húsinu verið stöðvuð en fyrirtækið sé að hefja pöntun á efni. Einnig kemur fram að miðað við stöðuna sé möguleiki að afhenda nýtt loftborið íþróttahús úr verksmiðju í byrjun október. Þá á eftir að flytja dúkinn til landsins og koma honum upp.

Virðingarfyllst,
meirihluti bæjastjórnar í Hveragerði

Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir (O-lista)
Njörður Sigurðsson (O-lista)
Sandra Sigurðardóttir (O-lista)
Halldór Benjamín Hreinsson (B-lista)
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir (B-lista)

 

Nýjar fréttir