7.3 C
Selfoss

Málverk af Kolfinni frá Kjarnholtum 1 afhjúpað í Aratungu

Vinsælast

Magnús Einarsson gaf sveitarfélaginu Bláskógabyggð nýverið málverk af stóðhestinum Kolfinni frá Kjarnholtum 1. Málverkið var afhjúpað við athöfn sem fram fór í Aratungu 19. maí sl. að viðstöddum oddvita og sveitarstjóra Bláskógabyggðar og nokkrum boðsgestum Magnúsar. Guðlaug Gunnarsdóttir málaði verkið eftir ljósmynd.

Magnús stundaði um áratugaskeið hrossarækt í Kjarnholtum í Biskupstungum. Að mati þeirra sem til þekkja hefur ræktunarstarf hans reynst afar mikilvægt. Í því starfi var Kolfinnur kjölfesta og hefur hann markað djúp spor til framfara í íslenskri hrossarækt. Árið 1994 var Magnús útnefndur ræktunarmaður ársins af Búnaðarfélagi Íslands og árið 2017 hlaut hann heiðursviðurkenningu Félags hrossabænda, fyrstur manna, fyrir ræktunarstarf sitt.

Kolfinnur fæddist í Kjarnholtum árið 1981 og var undan Glókollu frá Kjarnholtum 1 og Hrafni frá Holtsmúla. Kolfinnur varð í 1. sæti í flokki stóðhesta sex vetra og eldri á Landsmóti hestamanna árið 1990 á Vindheimamelum í Skagafirði. Þá hlaut hann heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti árið 2000 í Víðidal í Reykjavík. Sú afkvæmasýning þótti sýna yfirburða gæðingskosti að rými, getu og fjölhæfni. Í upprunaættbók íslenska hestsins (Worldfeng) eru skráð 817 afkvæmi undan Kolfinni.

Við athöfnina í Aratungu ávörpuðu Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda, og Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, viðstadda og Hjördís Geirsdóttir stýrði söng ásamt Magnúsi.

Nýjar fréttir