6.1 C
Selfoss

Tómatsúpa, foccachia og kanilhnútar

Vinsælast

Ástmar Karl Steinarsson er matgæðingurinn þessa vikuna.

Vil ég þakka hertoganum af stóru Sandvík kærlega fyrir tilnefninguna, það er aldrei lognmolla í kringum þann mann 

Klassískur kvöldmatur hjá okkur er einföld tómatsúpa með pastaskrúfum eða makkarónum. 

Súpa

  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif 
  • 3 matskeiðar olífuolía
  • 2 matskeiðar tómatpurré
  • 2 dl vatn
  • 1 súputeningur, kjúklinga
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar (hakkaðir)

Aðferð
Byrja á því að fínsaxa lauk og hvítlaukinn, sett í pottinn. Látið svitna aðeins, því næst er tómatpurréinu bætt við og það látið malla í …c.a. ½ -1 mín. Vatnið og súputeningur sett ofaní þar til suða er kominn. Tómötum bætt við og öllu er blandað saman með töfrasprota. Þetta er allt látið sjóða saman i amk. 5 mín. 

Vinnsælt er að hafa með soðið egg og soðnar makkarónur (eða annað pasta). 

Til að lyfta svo súpunni upp á hærra plan er mjög gott að setja rifinn parmesanost og parmaskinku (eða aðra hráskinku) ofaná.

Brauð 

  • Gott er að hafa gott brauð með súpunni, ég mæli með Foccachia brauði
  • 950 gr. hveiti
  • ½ pakki gerpoki (6gr) 
  • 1 teskeið salt
  • 7 dl vatn, ca. 25 gráður
  • 1 matskeið hunang

Jurtaolía

  • Basilika, rósmarín, timjan (…eða annað sem  
  • 2 hvítlauksrif
  • ½ dl ólífuolía

Aðferð
Öllu blandað saman og hnoðað í hrærivél á lágum til mið-lungshraða í c.a. 10-12mín. 

Deigið er látið í olíuborið ílát og fær að hefast í 40-60 mín. Því næst er degið sett í formið (ég hef notast við stálform frá Ikea) og látið hefast í aðrar 45 mín. Á meðan degið er að hefast þá er fínt að búa til jurtaolíuna. Hér er sniðugt að notast við mortel ef það er fyrir hendi annars bara hakka vel saman. Þegar degið er búið að hefast þá er jurtaolían sett yfir og gerð eru holur með fingrunum hér og þar til að dreifa olíunni.  Mjög gott er sáldra salti vel yfir áður en brauðið er sett inn í ofnin. 

Brauðið er bakað við 225°C í c.a. 25 eða þegar það er tilbúið. Brauðið er látið kólna á rist.  

Eftirréttur

Það er ávallt vinsælt að geta boðið uppá kanelhnúta eða kansnúða í eftirmat …jahh eða jafnvel með kaffinu (í raun hvenær sem er)

  • 950 gr. hveiti
  • 125 gr. sykur 
  • ½ teskeið salt
  • 1 teskeið kardemommur
  • 5 dl mjólk (20-25°C heit) 
  • 1 egg
  • 150 gr smjör (mjúkt, í teningum) 
  • ½ pakki þurrger 

Fylling 

  • 125gr. púðursykur 
  • 2 matskeiðar kanel
  • 125 gr. smjör (mjúkt)
    þegar vel liggur á mér þá á ég til að tvöfalda fyllinguna, því hey þetta er jú eftirréttur.

Öllu (nema smjörið) er blandað saman og sett í hrærivél og hnoðað í 10-12 mín, byrjað á lágum hraða og unnið sig upp í miðlungs. Því næst er smjörinu bætt við, best er að setja það í smá skömmtun þannig að deigið geti tekið á móti því, deigið hnoðað áfram í 5-8 mín. 

Deigið er því næst látið hefast í 50-60 mín eða þegar það hefur náð að tvölda sig.

Um að gera fyllinguna á meðan deigið er að hefast. 

Síðan er því skipt í tvennt og rúllað út í 5mm þykkt eða þannig að það myndar c.a. 60x70cm flöt, muna að setja hveiti undir svo það festist ekki við borðplötuna. Eyðileggur soldið upplifuna þegar þetta fer allt að festast, hér tala ég af reynslu.

Hér höfum við tvo möguleika, annars vegar að búa til snúða þ.e. setja alla fyllinguna á (þá er í raun nauðsynlegt að tvöfalda fyllinguna) og rúlla og skera í c.a. 2-3 cm sneiðar og búa til snúða. Svo er það sem ég kalla kanelhnúta (n. kanelsnurrer) sem er aðeins meira maus …en gefur þessu meira framandi blæ.

Þá er fylling sett á annan helmingin og hinum flétt yfir. Skorið í strimla c.a. 2-3 cm og snúið uppá þá og svo vafið um tvo fingur(gott er að hafa smá bil á milli þeirra), endanum er svo stungið í gegnum miðjun þ.e. bundið hnút.

Hnútarnir/snúðarnir eru svo látnir hefast aftur í c.a 30-60 mín. 

Áður en þeir eru settir í ofni pensla ég þá með annað hvort mjólk eða eggi (ég þynni það gjarnan með smá vatni) og sáldra perlusykri (sænskur ef hann er til) yfir. Einnig er hægt að setja hnetukurl eða annað kurl, sjálfur hef ég ekki prófað það en það hljómar vel.

Inní ofn við 225°C í 10 mín eða þegar botnin er tilbúinn. Kælt niður og tilbúið til að borða. 

Ég hef heyrt að það sé vinsælt að setja smá glassúr þegar þeir eru orðnir kaldir, en þeir ná venjulega ekki að kólna hjá okkur.


Að lokum vil ég tilnefna matgæðinginn mág minn sem lætur sér allt Selfoss varða, hann Óli Rúnar Eyjólfsson. Hef heyrt að hann lumi á góðri uppskift af grafinni gæs. Spurningin er hvort hann er tilbúinn að láta hana af hendi eða ekki. 

Nýjar fréttir