2.3 C
Selfoss

Kveðja við starfslok bæjarstjóra

Vinsælast

Ég vil við starfslok mín sem bæjarstjóri Hveragerðisbæjar senda öllum Hvergerðingum sem og öðrum sem ég hef unnið með á þessum vettvangi mínar bestu kveðjur og þakklæti fyrir einstakt samstarf og vináttu undanfarin 16 ár.

Það er óhætt að segja að tíminn flýgur og ekki síst þegar unnið er að skemmtilegum verkefnum, með dásamlegu fólki. Það eru liðin 16 ár frá því að ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera ráðin bæjarstjóri Hveragerðisbæjar. Í bæjarfélaginu þar sem ég er alin upp og þar sem ég á mínar rætur og þar sem ég hef valið að búa ásamt minni stóru fjölskyldu.

Hveragerði er um margt einstakur staður, í alfaraleið, stutt frá höfuðborgarsvæðinu, faðmaður af fjallahringnum og með gufustrókana sem einkenni bæjarins.

Umhverfi bæjarins hefur skapað bænum okkar mikla sérstöðu en það hafið þið líka gert, bæjarbúar!

Í Hveragerði býr einstakur hópur fólks sem lætur sér annt hvert um annað, stendur saman þegar á þarf að halda og faðmar jafnframt fjölbreytileika mannlífsins í allri sinni dýrð með fall-egum hætti. Af því hef ég ávallt verið stoltust.

Á þessum árum höfum við gengið í gegnum svo ótalmargt saman. Efnahagsundrið, bankakreppuna og hrunið, jarðskjálftann stóra, brunann í Eden,  svínaflensuna og heimsfaraldur Covid-19 og svo í lokin féll íþróttahúsið okkar, Hamarshöllin, svo fátt eitt sé talið. Held mér sé óhætt að segja að hér hafi verið mörgu að sinna og mörg verkefnin bæði óvænt og stór. En þrátt fyrir allt þetta þá hefur í Hveragerði verið afar mikil uppbygging undanfarin ár, svo mikil að eftir er tekið á landsvísu. Hér hafa risið fjölmargar nýjar íbúðir og fjölbreytt fyrirtæki og tækifærin eru á fáum stöðum fleiri en hér. Þeir sem taka nú við stjórnartaumum í bæjarfélaginu taka við góðu búi og fjölmörgum verkefnum sem mikilvægt er að sigla í höfn með góðum hætti. Bygging hjúkrunarheimilis, viðbyggingar við grunnskólann, bygging nýs leikskóla og lausn á aðstöðu til íþróttaiðkunar eru helstu stóru verkefnin sem framundan eru. Það verður nóg um að vera enda þannig á það að vera í ört vaxandi sveitarfélagi.

Allir vilja bænum sínum hið besta og efast ég ekki um að vel verði haldið utan um verkefnin hér eftir sem hingað til. Ég óska nýkjörinni bæjarstjórn alls hins besta og vona og veit að við munum sjá Hveragerði og Hvergerðinga eflast á næstu árum.

Þúsund þakkir fyrir mig, kæru vinir.  Þessi ár hafa flogið hraðar en mig hefði órað fyrir.  Hjá mér taka nú við ný verkefni á ákaflega fallegum og spennandi stað sem ég hlakka til að takast á við.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim bæjarfulltrúum sem ég hef unnið með á þessum árum fyrir gott samstarf. Samstarfsfólki mínu á bæjarskrifstofunni þakka ég einstakt samstarf og vináttu sem aldrei hefur borið skugga á. Stjórnendum stofnana og starfsmönnum öllum þakka ég einnig frábært samstarf, dugnað og elju á vandasömum tímum. Það er vandfundinn betri hópur en sá sem starfar og starfað hefur hjá Hveragerðisbæ, það vil ég að þið vitið. Síðast en ekki síst þakka ég Helgu Kristjánsdóttur, skrifstofustjóra og staðgengli bæjarstjóra fyrir allt, án hennar hefðu árin mín 16 sem bæjarstjóri ekki gengið svona vel.  Hafðu bestu þakkir fyrir alla aðstoð og vináttu.

Með kærleikskveðju til ykkar allra,

Aldís Hafsteinsdóttir,
fyrrverandi bæjarstjóri Hveragerðisbæjar

Nýjar fréttir