13.4 C
Selfoss

Vorbasar Stróks laugardaginn 28. maí kl. 13-16

Vinsælast

Laugardaginn 28. maí kl. 13-16 verður vorbasar haldinn í Strók að Skólavöllum 1 á Selfossi. Til sölu verða inniblóm sem við höfum verið að rækta seinustu vikur, blómahengi, listilega skreyttir blómapottar og steinar, prjónavörur, dúkkuföt, eyrnalokkar og margt annað skemmtilegt sem okkar dásamlegu félagar hafa verið að vinna að í vetur. Basarinn er mikilvæg fjáröflun fyrir félaga Stróks og hvetjum við fólk til að koma og styðja við okkar frábæru starfsemi.

Klúbburinn Strókur er virkni- og endurhæfingarúrræði sem er opið öllum íbúum á Suðurlandi. Strókur er bæði athvarf og virknimiðstöð þar sem einstaklingar eru studdir í virkni og bata eftir að hafa lent utan vinnumarkaðar sökum geðraskana og/eða eru að glíma við félagslega einangrun. Opnunartími Stróks er mánud.-fimmtud. frá kl. 8:30-15:00. Þeim sem koma í þjónustu hjá Strók er boðið upp á einstaklingsmiðaðan stuðning þar sem hjálp til sjálfshjálpar er veitt og unnið út frá styrkleikum hvers og eins. Dagskrá Stróks er þannig uppbyggð að boðið er upp á dagskrárliði sem styðja við iðju-, líkamlega, andlega- og félagslega færni. Unnið er með hverjum og einum að hans markmiðum og einstaklingar studdir til eflingar hvort sem er í formi fjölbreyttar vinnu í húsinu, öðrum sjálfboðaliðastörfum, skráningu í nám eða þeir aðstoðaðir við að komast út á vinnumarkað. Jafningjastuðningur er án efa einn af stærstu styrkleikum starfseminnar og það að rjúfa félagslega einangrun. Aðal markmið Stróks er að styðja við bataferli notenda heilbrigðiskerfisins og að fólk með geðraskanir og/eða félagslega einangrun fái úrræði við sitt hæfi í heimabyggð. Einnig að auka tengsl fólks og efla einstaklinginn til sjálfshjálpar, stuðla að virkni og endurkomu út á vinnumarkað, fyrirbyggja innlagnir og brjóta niður fordóma.

Við vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta á vorbasarinn okkar þann 28. maí næstkomandi, við tökum vel á móti gestum og gangandi. Frjáls framlög frá fyrirtækjum og öðrum aðilum til styrktar starfseminni okkar eru alltaf vel þegin. Nánari upplýsingar á heimasíðu Stróks, www.strokur.is.

Fjóla Einarsdóttir, forstöðumaður Stróks

Nýjar fréttir