0.4 C
Selfoss

Óskabörnin okkar

Vinsælast

Hlífðarhjálmar til allra 7 ára barna  á Íslandi

Hjálmarnir  hafa breyst talsvert frá því í fyrstu og nýtast nú við almennari tómstundaiðkun en áður.  Stór flötur hjálmsins virkar sem endurskinsmerki.  Hjálmarnir henta mjög vel fyrir börnin hvort sem þau eru á hjóli, hjólaskautum eða hjólabretti.

Landsverkefni í 3 áratugi

Kiwanisklúbbarnir á Íslandi hafa í áratugi annast um útvegun og dreifingu reiðhjólahjálma til 7 ára barna. Þetta forvarnarstarf  hófst hjá Kiwaniskúbbnum Kaldbak  á Akureyri 1991. Fljótlega tóku fleiri klúbbar upp verkefnið og náði það fljótt almennri útbreiðslu   Kiwanisklúbburinn Búrfelli á Selfossi tók þetta verkefni að sér 1997.

Dreifing í skólana. Vorið er að koma

Eimskip annast dreifingu þeirra um allt land, en þar sem kiwanisklúbbar eru starfandi annast  þeir þar afhendingu á hjálmunum. Það er ávallt mikið fagnaðarefni að fá tækifæri að afhenda brosandi börnum þetta sjálfsagða öryggistæki.

Foreldrum mikill fengur er
sú farsæld hverju sinni,
ef hjólandi barnið hjálminn ber
á höfði í umferðinni.

Ómetanlegt framlag Eimskips

Fyrstu  árin öfluðu klúbbarnir fjár til þessa verkefnis hjá tryggingafélögunum auk framlags úr félagsjóði, en samstarf við Eimskip hófst 2004. Frá þeim tíma hefur Eimskip kostað verkefnið bæði innkaup og flutninga. Síðan hefur það náð  til allra 7 ára barna á landinu.

Óskabörnin okkar

Þetta er óskaverkefni okkar. Í upphafi var Eimskipafélag Íslands  „óskabarn þjóðarinnar“ en nú hefur Eimskip í samvinnu við Kiwanishreyfinguna gert þetta verkefni að „óskabarni“ sínu.  Öll 7 ára börnin eru ´“óskabörnin okkar“

Eimskips trausta átakið
í okkar slysavörnum.
Með vænsta hjálma verkefnið
er veitist landsins börnum.

Hjörtur Þórarinsson,
félagi í Kiwanisklúbbnum Búrfelli

Nýjar fréttir