7.8 C
Selfoss

Stelpur Filma á Stokkseyri

Vinsælast

RIFF stendur fyrir frábæra verkefninu Stelpur Filma!, valdeflandi námskeiði sem hefur það að markmiði að hvetja ungar stúlkur og kynsegin ungmenni í 8. og 9. bekk til kvikmyndagerðar. Á námskeiðinu fá þátttakendur tækifæri til að rækta innri sköpunargáfu, spegla sig í kvenkyns fyrirmyndum og læra undirstöðuatriðin í kvikmyndagerð undir tryggri leiðsögn virtustu handritshöfund og kvikmyndagerðakvenna landsins. Megináhersla er lögð á sjálfseflingu, umburðarlyndi og að skapa öruggt rými fyrir þátttakendur þar sem allar skoðanir og hugmyndir eiga rétt á sér.

Margir samverkandi þættir gera það að verkum að stelpur eru ólíklegri til að prófa sig áfram í kvikmyndagerð og er námskeiðið mikilvægur þáttur í því að jafna út kynjahlutfallið í iðnaðinum. Námskeiðið var fyrst haldið í Norræna húsinu árið 2015, í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi, en í ár verður það í fyrsta sinn haldið í öllum landshlutum. Markmiðið er að vera með bækistöð í hverjum landshluta þar sem þátttakendur úr nærliggjandi bæjarfélögum koma saman.

Námskeiðið er frá mánudegi til föstudags og er hámarksfjöldi þátttakenda fyrir hvern landshluta 60 nemendur sem skipt er í smærri hópa. Verkefnastjóri RIFF heldur utan um námskeiðið, kennsluefni og tækjabúnað og sjá fagaðilar úr kvikmyndaiðnaðinum um alla kennslu. Hver hópur framleiðir eina stuttmynd frá grunni sem má vera allt að fimm mínútna löng og verða myndirnar sýndar í skólum og félagsmiðstöðvum. Einnig verður hægt að nálgast þær á heimasíðu RIFF en frumsýningin verður á hátíðinni sjálfri í september árið 2022.

Námskeiðið fór fram í Draugasetrinu á Stokkseyri í liðinni viku og fór einstaklega vel fram. Aníta Briem kom og spjallaði við hópinn sem var hinn áhugasamasti. „Mér fannst námskeiðið mjög skemmtilegt, góð reynsla sem mun klárlega nýtast mér! Það var ótrúlega gaman að fá Anitu Briem í heimsókn, hún byrjaði á að kynna sig og segja aðeins frá sjálfri sér, talaði um bransann og listina, hennar reynslu af leiklist í útlöndum og svo fengum við að spyrja hana spjörunum úr. Það gekk líka mjög vel að gera stuttmyndina, gaman í tökum og allt gekk hratt og vel fyrir sig.“ Segir Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, ánægður námskeiðsgestur.

Nýjar fréttir