13.4 C
Selfoss

Hveragerðiskirkja 50 ára

Vinsælast

Laugardaginn 14.maí nk. eru 50 ár liðin frá vígslu Hveragerðiskirkju, en hún var vígð við hátíðlega athöfn 14.maí 1972 af Sigurði Pálssyni vígslubiskupi í Skálholti. Ári fyrr, 31.maí 1971, vígði Sigurbjörn Einarsson biskup Íslands safnaðarheimilið.  Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag árið 1946 og þá áttu Hvergerðingar kirkjusókn í Kotstrandarkirkju. Fljótlega var farið að huga að því að stofna sérstaka kirkjusókn í hinu vaxandi garðyrkjuþorpi. Formlegt leyfi til að stofna sóknina var gefið út af Dóms- og kirkjmálaráðuneytinu 16.júní 1962. Undirbúningur kirkjubyggingar hófst fljótlega eftir það og byggingarnefnd var skipuð. Jörundur Pálsson arkitekt gerði uppdrátt að nýrri kirkju í Hveragerði í samráði við sóknarnefnd. Bygging kirkjunnar hófst í júlí 1967. Byggingarmeistari var Jón Guðmundsson í Hveragerði. Mikið sjálfboðastarf var innt af hendi við kirkjubygginguna og fagmenn gáfu umtalsverðan afslátt af allri vinnu.

Það sýnir stórhug og framsýni að byggja svo veglega kirkju með aðstöðu fyrir safnaðarstarf í ungu sveitarfélagi, sem þá taldi vel innan við þúsund íbúa. Og allar götur síðan hafa bæði kirkjan og safnaðarheimilið verið mjög mikilvæg fyrir allt kirkjustarf, tónlistar- og menningarviðburði og félagsstarf í Hveragerði og nágrenni. Einstaklega góður og fallegur hljómburður í kirkjunni hefur gert hana mjög eftirsótta til tónleikahalds.

Í dag er íbúafjöldi Hveragerðis vel yfir 3000 og nánast alla daga er fólk í kirkjunni. Barna – og æskulýðsstarf, foreldramorgnar, barnakór og kirkjukór auk annars safnaðarstarfs og félagsstarfs sem fær aðstöðu í kirkjunni. Helgihald og athafnir á lífsins leið frá vöggu til grafar vegna þess að kirkjan er ramminn utan um margar af stærstu stundunum í lífinu bæði í gleði og sorg.

Sunnudaginn 15.maí nk. kl.14 verður hátíðarmessa í Hveragerðiskirkju í tilefni af vígsluafmælinu. Biskup Íslands prédikar og að messu lokinni verður boðið upp á afmæliskaffi í safnaðarheimilinu. Allir eru hjartanlega velkomnir!

Fréttatilkynning frá Hveragerðiskirkju

Nýjar fréttir