6.1 C
Selfoss

Úrslit í Suðurlandsdeildinni 2022

Vinsælast

Eftir frábæran vetur í Suðurlandsdeildinni þá var það lið Árbæjarhjáleigu / Hjarðartúns sem sigraði í Suðurlandsdeildinni 2022. Úrslitin réðust ekki fyrr en að lokinni töltkeppni en allir fjórir knapar liðsins fóru í úrslit.

Lokakvöldið var magnað á Rangárbökkum en bæði tölt Hraunhamars fasteignasölu og skeið KEMI fór fram utandyra í frábæru veðri sem gefur svo sannarlega tóninn fyrir komandi Landsmót hestamanna.

Í skeiði KEMI var það Hafþór Hreiðar Birgisson í liði Árbæjarhjáleigu / Hjarðartúns á Jarli frá Þóroddsstöðum sem fór á tímanum 8,25 sek. sem sigraði í flokki áhugamanna. Í flokki atvinnumanna var það Helga Una Björnsdóttir á Jarli frá Kílhrauni sem keppir fyrir lið Nonnenmacher sem sigraði á tímanum 7.95 sek. Árbæjarhjáleiga/Hjarðartún vann liðabikarinn í skeiði. Hans Þór Hilmarsson sem einnig keppir fyrir lið Árbæjarhjáleigu / Hjarðartúns varð í 4-5 sæti á tímanum 8.45 sek á Vorsól frá Stóra-Vatnsskarði.

Þá var komið að tölti Hraunhamars fasteignasölu en þar voru magnaðar sýningar og má segja að Leó Geir Arnarsson á Matthildi frá Reykjavík hafi átt sýningu kvöldsins en hann sigraði flokk atvinnumanna með hvorki meira né minna en 8.61 í aðaleinkunn en hann keppti fyrir lið Krappa. Í flokki áhugamanna var það Katrín Sigurðardóttir á hryssunni Ólínu frá Skeiðvöllum sem keppir fyrir lið Húsasmiðjunnar sem stóð uppi sem sigurvegar með einkunnina 7.10. Það var lið Árbæjarhjáleigu / Hjarðartúns sem sigraði liðakeppni í tölti en knapar þeirra í flokki atvinnumanna, Hekla Katharína Kristinsdóttir á Lilju frá Kvistum endaði þriðja og Hans Þór Hilmarsson á Tón frá Hjarðartúni endaði fjórði. Í flokki áhugamanna var það Hermann Arason á Gullhamar frá Dallandi sem endaði þriðji og Hafþór Hreiðar Birgisson á Krumma frá Höfðabakka sem endaði fjórði. Glæsileg frammistaða hjá liðinu!

Heildarúrslit kvöldsins má nálgast í LH Kappa appinu.

Frábær vetur að baki

Við þökkum fyrir frábæran vetur í Suðurlandsdeildinni, aldrei hefur deildin verið jafn jöfn og hestakosturinn hefur verið algjörlega magnaður!

Styrktaraðilar, sjálfboðaliðar, hestabraut FSU, knapar, liðseigendur, Rangárhöllin, hestamannafélagið Geysir og allir sem hafa með einhverju móti komið að deildinni í vetur eiga miklar þakkir skilið.

Í haust verður auglýst eftir nýjum liðum og línurnar lagðar fyrir komandi tímabil.

TAKK FYRIR OKKUR!

Fréttatilkynning frá Rangárhöllinni Rangárbökkum

Hafþór Hreiðar Birgisson og Jarl frá Þórodsstöðum fyrir lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns.
Helga Una Björnsdóttir og Jarl frá Kílhrauni fyrir lið Nonnenmacher.
Leó Geir Arnarsson og Matthildur frá Reykjavík fyrir lið Krappa.

Nýjar fréttir