8.4 C
Selfoss

Taxa þankar

Vegna ýmissa breytinga sem virðast vera í uppsiglingu í leigubílaakstri langar mig að minnast fyrri tíma. Í byrjun aksturs leigubíla um 1960 voru vegir holóttir og moldarkvörf víða í vorleysingum, þetta óku menn flestir á amerískum rennireiðum en pústkerfi og demparar fengu stundum að kenna vel á því. Í þá daga var bensín ekki það dýrt að ekki væri hægt að gera út bíl með alvöru vél, þá var ekið um sveitir því böllin voru alltaf í félagsheimilum víða um suðurland. Þá voru stundum 14 leigubílar í ferðum á þessi böll og látnir bíða þar til ballið var búið.

Á síðustu öld voru útgerðarstaðir með allri ströndinni og voru sjómenn oft með úttroðna vasa í landlegum og við vertíðarlok. Þá kom fyrir að leigubílastjóri færi að heiman á föstudagskvöldi og kæmi ekki aftur fyrr en á sunnudags eftirmiðdag. Leigubílstjórar hafa þjónað héðan frá Selfossi í 62 ár og hafa margir mætir og góðir menn lagt á sig vökur og strit í alls konar veðráttum, ég veit að margir hugsa stundum til baka til gömlu bílstjóranna sem óku þeim í alls konar ástandi og minnast þeirra sem farnir eru og aka nú á sléttunum miklu.

Nú eru breyttir tímar með símasendingum ,appi, rafhjólum og rafdeilibílum því allir virðast vera að flýta sér sem mest. Mér finnst verka tvímælis að fjölga leyfum því það verður að vera innkoma til að gera út leigubíl þar sem skattar og skyldur eru háar, tryggingar eru til dæmis þrisvar sinnum hærri en á venjulegum heimilisbíl.

Svona til gamans var farþegi að finna að því að mælir sýndi um 1.500 kr. skutl á milli húsa en sá hinn sami kom af barnum með glas í hönd sem kostaði ekki undir 2.400 kr. En þrátt fyrir allt var alltaf gaman að þjónusta allt þetta fólk því öll erum við ólík eins og við erum mörg.

Ég þakka öllum mínum viðskiptavinum fyrir góð og skemmtileg ár.
Og megi leigubílaakstur dafna á suðurlandi.

Fyrrum leigubílsstjóri,
Júlíus Hólm.

Fleiri myndbönd