9.5 C
Selfoss

Gosi

Gunnar Egilsson.
Gunnar Egilsson.

Nú stækkar nefið

Þeir eru á ferðinni spítukarlarnir. Annar er í einhverskonar bestun en hinn í farsæld. Hvor í sínu horni samstarfsins skrifa þeir einhvern tilbúning sem stenst enga skoðun. Og á meðan stækkar nefið. Í viðtölum kemur sama ruglið, titrandi röddu, enda ekki verið að fara rétt með. Ekki líst mér á. Það er von að það þurfi að hlaupa á milli flokka.

Höfum þetta á hreinu. Ekki þarf að leita nema í fjölmiðla eða fundagerðir til að sjá að það voru sjálfstæðismenn sem stóðu að stækkun leikskólans Álfheima og gerði að sex deilda skóla. Til stóð að setja bygginguna í útboð í maí 2018 en það dróst fram í júní. Öll hönnunarvinna og teikningar voru klárar og eftirlit. Meira að segja tilboðin voru klár, en þá tók nýr formaður framkvæmda- og veitustjórnar, annar spýtukarlanna, sig til og tekur einhliða ákvörðun um að hætta við. Kastaði allri vinnunni út um gluggann og sennilega um 30-35 milljónum króna í leiðinni. Eftir þetta var ekkert gert í heilt ár í leikskólamálum, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir mínar um stöðu mála á þeim vettvangi. Í september 2019 skrifa ég grein þar sem ég upplýsi að 52 börn væru á biðlista eftir leikskólaplássi. Þá datt þeim í hug að mætti setja upp lausar skólastofur á bílaplanið við Álfheimana. Enn ein skyndireddingin. Á þessum tíma kallaði ég eftir því að byggður yrði nýr leikskóli sem fyrst. Vinnan hófst, en eins og áður tók ferlið alltof langan tíma, einkanlega vegna þess að meirihlutinn er ekki búinn að skipuleggja hlutina eða hafa festu á hlutunum. Loks er þessi skóli tekinn í notkun 2021, ári of seint að mínu mati. Sama má segja um Stekkjaskóla, en það er varla hægt að minnast á það ógrátandi. Hálfur milljarður í lausar kennslustofur. Enda farið alltof seint í þá framkvæmd líka. Vinnubrögðin og fjárútlátin í því verkefni eru stórundarleg. Það verður að horfa fram í tímann og gera áætlanir og standa við þær.

Talandi um áætlanir

Það þýðir ekki að horfa framhjá þeirri staðreynd að það vantar heitt vatn til að mæta þeirri þörf sem komin er upp hvað varðar nýbyggingar í Árborg. Ástæðan fyrir því að við erum þó ekki í verri stöðu er vegna þess hvernig við sjálfstæðismenn héldum á hlutunum í veitumálum. Á okkar tíma boruðum við fimm vinnsluholur. Það þurfti kraft og þor og framtíðarsýn til að ráðast í þetta. Við boruðum í Ósabotnum, Laugardælum og fyrir utan á. Á okkar tíma var gerður samningur um heitavatnsréttindin í Stóra-Ármóti. Vorið 2018 átti í raun bara eftir að skrifa undir samning um réttindi í Oddgeirshólalandi. Þeim samningi hefur ekki enn verið komið á, og samningsstaða sveitarfélagins nú miklu verri en þá. Sinnuleysi núverandi meirihluta í þessum málaflokki er gríðarlegt áhyggjuefni og lýsir sér best í þeirri stöðu sem við horfum uppá núna.

Holan sem var tekin í gagnið 2019 var klár vegna okkar undirbúnings. Hvað hefur núverandi meirihluti gert? Dregið lappirnar og látið bora eina holu. Lottoholuna svokölluðu, nema hvað, hún skilar ekki nema rétt rúmum 8 sekúndulítrum. Þeir stóðu nefnilega fyrir framan myndavélarnar brosandi og gortuðu sig af lottóvinningnum sínum, en áttuðu sig ekki á því að á miðanum var bara ein tala rétt.

Að halda því fram að byggja nýjan miðlunargeymi til að leysa þessi mál, er eins og með alla aðra útreikninga þessara manna – út í loftið.

Talandi um útreikninga

Nú blasir slæm staða bæjarsjóðs við öllum sem sjá vilja. Sumir spýtukarlarnir stinga hinsvegar hausnum í sandinn. Staðreyndirnar tala sínu máli. Í tíð núverandi meirihluta í Árborg hafa skuldirnar vaxið úr 11 milljörðum í 22. Hversu dýrt var þetta fótboltahús eiginlega? Og þetta gerist á meðan við vorum rukkuð fyrir hæstu fasteignagjöld landsins og útsvarið í toppi.

Ekki halda því svo fram að þessi skuldaaukning sé vegna þess að það hafi verið svo mikið framkvæmt. Nú eru fjármagnsgjöldin orðin um 850 milljónir króna. Það eru 7,5 prósent af tekjum bæjarfélagsins sem fer í að greiða þau. Í heimilisbókhaldinu er þetta eins og að það þyrfti tæplega ein mánaðarlaun til að borga vextina af yfirdráttarheimildinni. Hver gerir svona lagað? Og svo halda þeir því fram að vaxtakostnaðurinn verði lægri á þessu ári, lækki næstum um 200 milljónir? Hverskonar töfrabrögð eru þetta, á meðan skuldirnar aukast og vextirnir hækka?

Rekstur A-hlutans er ekki sjálfbær undir þessum kringumstæðum, enda skuldahlutfallið nú orðið 181 prósent. Rekstrartapið var 2480 milljónir. Hækkun á eignarsjóðnum upp á 613 milljónir, sem er bókhaldsbrella, breytir þar engu um. Þetta er glapræði. Það þarf breytt hugarfar varðandi opinbera fjármuni og rekstur sveitarfélags og stofnana þess. Þetta eru peningar fólksins sem býr hérna. Það þarf að fara betur með þá. Meirihlutinn skautar sífellt framhjá þeirri staðreynd og heldur að það sé ótakmarkað til af peningum. Eina leiðin til að snúa hlutunum við er að setja upp plan og halda sig við það. Fá fólkið sem starfar hjá sveitarfélaginu til að koma með í þessa vinnu.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég er búinn að skrifa margt um þessi mál í gegnum tíðina og oftar en ekki fengið yfir mig skítkast og læti, en læt það ekki á mig fá. Svona strengjabrúður skipta mig engu máli, sannleikurinn kemur alltaf í ljós. Ég treysti á að fólk kjósi skynsamlega, skoði þá kosti sem uppi eru og velji það fólk til valda sem horfist á við raunveruleikann og þorir að taka á málum með heiðarleikann að leiðarljósi. Setjum x við D á kjördag.

Góðar stundir og takk fyrir mig,

Gunnar Egilsson,
bæjarfulltrúi 2010 -2022 og oddviti sjálfstæðismanna.

Fyrri grein
Næsta grein

Nýjar fréttir