14.5 C
Selfoss

Framtíðin er mætt!

Vinsælast

Tæknifræðinám fyrir landsbyggðina í boði Háskóla Íslands. Kynningarfundur 12. maí kl. 16:00 í Fjölheimum, Selfossi.

Á ársþingi SASS sem haldið var á Hellu 28. – 29. október 2021 var mikið rætt um menntun og þá staðreynd að hlutfall háskólamenntaðra á Suðurlandi er talsvert undir landsmeðaltali sem gefur vísbendingar um lýðfræðilega veikleika sem mikilvægt er að bregðast við. Jafnframt var lögð rík áhersla á að jöfnuð verði tækifæri til náms, óháð búsetu og að varðveita þann árangur sem náðist við nútímavæðingu kennsluhátta á tímum heimsfaraldurs kórónaveirunnar.

Ljóst er að framboð af námi á háskólastigi sem kennt er í fjarnámi er afar breytilegt milli skóla. Þannig hefur einungis lítill hluti náms innan Háskóla Íslands, stærsta háskóla landsins verið í boði í fjarnámi. Staðreyndin er sú að skólinn hefur verið eftirbátur annarra en ætti sannarlega að vera í fararbroddi. Þátttakendur ársþingsins voru sammála því að þörf væri á hugarfarsbreytingu innan HÍ enda er raunin sú að flest nám er hægt að kenna í fjarnámi með þeim tæknilausnum sem í boði eru.

Og Háskóli Íslands hlustaði

Nú hefur skólinn sett sér stefnu um þróun fjarnáms og hyggst leggja vinnu í að verða raunverulega háskóli landsins alls. Þessu fögnum við hjá Háskólafélagi Suðurlands því eitt af okkar helstu baráttumálum hefur verið að efla nám í heimabyggð og tryggja nemendum aðgengi að fjölbreyttu námsframboði auk góðrar aðstöðu til náms, svæðinu öllu til uppbyggingar og grósku.

Framtíðartækni – tækni fyrir framtíðina

Suðurland hefur löngum verð þekkt fyrir vel menntað iðn-, verk- og tæknifólk með Fjölbrautaskóla Suðurlands í farabroddi þeirra sem veita slíkt nám. Og því lá beint við að leita til Tæknifræðiseturs Háskóla Íslands um samstarf sem lið í þessari stefnu HÍ um aukið fjarnám. Hefur Tæknifræðisetrið gert samning við Háskólafélag Suðurland um að bjóða þeim nemendum sem hug hafa á að hefja háskólanám í tæknifræði, að taka námið í fjarnámi frá námssetri félagsins í Fjölheimum og/eða öðrum fjarnámssetrum á Suðurlandi. Mikil áhersla er þó lögð á að ná saman hópi nemenda svo hægt verði að vinna með félagslega hluta námsins, sem er einn veigamesti þátturinn í því að nemendur endist í námi. Að hafa stuðning hvort af öðru í olgusjó háskólanáms er dýrmætt og enn mikilvægara þegar um fjarnám er að ræða.

Fimmtudaginn 12. maí kl. 16 Karl Sölvi Guðmundsson forstöðumaður Tæknifræðiseturs HÍ mun  kynna fyrirkomulag fjarnáms í tæknifræði í húsnæði Háskólafélagsins í Fjölheimum og hvetjum við alla áhugasama, bæði nýústskrifaða iðnaðarmenn og aðra með reynslu, að koma og kynna sér námið, aðstöðuna og aðstoðina sem Háskólafélagið býður uppá. Ef spurningar vakna er velkomið að senda þær á hfsu@hfsu.is.

Nýjar fréttir