-0.5 C
Selfoss

Það þarf heilt þorp

Vinsælast

Þegar ég fór í fyrsta skipti til Burkina Faso í Afríku árið 2014 þá fannst mér mjög merkilegt að sjá hvernig litlu börnin voru hluti af því sem foreldrar og ömmur og afar voru að gera hverju sinni. Á skólasvæðinu sem við fjölskyldan dvöldum á var kona sem sem sá um að elda fyrir barnahópinn sem stundaði nám við grunnskólann. Hún stóð yfir stórum potti og hrærði. En á baki hennar var lítið barn. Allan daginn bar hún þetta barn á bakinu og tók það af bakinu þegar þurfti. Barnið var vært og rólegt og leið greinilega vel. Fyrst hélt ég að þetta væri hennar eigið barn en komst síðar að því að þetta var barnabarnið hennar sem hún tók að sér að annast á daginn á meðan móðirin sinnti öðrum verkum.

Þetta þykir eðlilegt í Burkina Faso. Fjölskyldan hjálpast að. Á svæðinu er mikil fátækt og fólk gleðst yfir hverjum brauðbita. Fólk lifir einn dag í einu og gleðst yfir því sem þau hafa hverju sinni.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn.

Afrískt máltæki

En hvað þýðir það?

Það þýðir ekki bara að börn eigi rétt á að sinna skóla og frístundastarfi. Það þýðir líka að við foreldrarnir þurfum að taka höndum saman. Það þýðir að okkur á ekki að standa á sama. Það þýðir að við hvert og eitt höfum ábyrgð að gegna gagnvart þeim börnum sem við umgöngumst. Það þýðir að við foreldrar eigum að leggja okkur fram um að tengjast börnunum okkar. Það þýðir að ömmur og afa eiga að leggja sig í fram um að tengjast barnabörnunum sínum. Það þýðir að ef okkur grunar að eitthvað sé að á heimili barns þá ættum við að láta vita af því. Það þýðir að við ættum að kynnast vinum barnanna okkar og vera foreldri sem er forvitið um vini barnanna okkar án þess að vera hnýsin.

Börnin okkar skipta máli. Vinir barnanna okkar skipta máli.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Ég og þú erum hluti af þessu þorpi.

Nýjar fréttir