0.6 C
Selfoss

Skynsamleg ákvörðun tryggir gott íþróttastarf í Hveragerði

Til að tryggja sem fyrst áframhaldandi starfsemi í Hamarshöllinni og gott íþróttastarf í Hveragerði hefur meirihluti D-listans samþykkt að þegar í stað verði pantaður nýr dúkur frá fyrirtækinu Duol.  Tilboð frá fyrirtækinu liggur fyrir og nemur það 86,7 m.kr.. Innifalið er öll yfirbyggingin og allt sem henni tilheyrir sem og lýsing.  Var dúkurinn pantaður að loknum fundi bæjarstjórnar þann 13. apríl s.l..

Með uppsetningu, nýju íþróttagólfi, gervigrasi og annarri aðstöðu innanhúss næmi kostnaður við endurbyggingu þessa 5.000m2 mannvirkis um 330 m.kr. sem gæti orðið minna ef gervigrasið reynist óskemmt og ef sjálfboðavinna verður með svipuðum hætti við samsetningu hússins eins og áður.

Með þessari ákvörðun er stefnt að því að Hamarshöllin verði risin aftur næsta haust og þannig styttur sá tími aðstöðuleysis sem annars blasir við bæjarbúum, en afhendingartími dúks er nú rúmir 4 mánuðir.

Stálgrindarhús kostar 1000 milljónum meira

Tillaga meirihlutans er sett fram eftir ítarlega skoðun á valkostagreiningu sem unnin var af Verkís ehf en þar var borinn saman kostnaður við einangrað stálgrindarhús og við endurbyggingu loftborins íþróttahúss.

Samkvæmt greiningu Verkís kostar stálgrindarhús með öllu því sem tilheyrir 1.200 m.kr – 1.600 m.kr. en byggingakostnaður slíkra húsa sem nýlega hafa verið reist liggur fyrir.

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með bæjarfulltrúum minnihlutans í Hveragerði tala niður lausn sem hefur reynst jafn vel og raun ber vitni síðustu 10 ár. Lausn sem hefur gjörbylt íþróttastarfi bæjarfélagsins. Lausn sem skuldbindur ekki sveitarfélagið og íbúa þess fjárhagslega næstu áratugi og gefur færi á að haldið verði áfram þeirri innviðauppbyggingu á öðrum sviðum sem nauðsynleg er á næstu árum.

Fótboltaskjól sem stenst enga skoðun

Bæjarfulltrúar höfðu sjö vikur til þess að velta fyrir sér og skoða aðra valkosti við byggingu nýs íþróttahúss á meðan að Verkís vann sína greiningu. Á fundi bæjarstjórnar greindi minnihlutinn frá verðhugmynd sem þau óskuðu eftir og fengu tveimur dögum fyrir fund í dúkhýsi með stálgrind.
Enn hafa ekki borist neinar aðrar upplýsingar en þær að slíkt hús kosti 300 m.kr. uppkomið. Því miður standast þessar tölur enga skoðun enda virðist hvergi í verðhugmyndinni tekið tillit til kostnaðar við hönnun, við búnað, styrkingu undirstaðna, við einangrun, við brunakerfi, loftræsingu og gólfefni svo fátt eitt sé talið.

Er það í raun með öllu óskiljanlegt að bæjarfulltrúar taki ekki mark á rauntölum í skýrslu frá einni stærstu verkfræðistofu landsins. Verkfræðistofu sem hefur síðustu ár hannað og gert kostnaðaráætlanir fyrir íþróttamannvirki og byggir því niðurstöður sínar á rauntölum sambærilegra verka.

Rétt er að geta þess að umrædd hús sem minnihlutinn kallar eftir eru af innflytjanda kölluð fótboltaskjól og nýtast þau undir fátt annað en knattspyrnu.  Í Hafnarfirði reis slíkt 8.500m2 hús fyrir 3 árum og kostaði það rúmar 800 milljónir króna. Þessi kostnaður hefur síðan einungis hækkað. Ef við slíkt hús yrði bætt yleiningum og öðrum búnaði til að halda húsinu heitu, upplýstu og loftræstu svo fátt eitt sé talið yrði kostnaðurinn fljótur að fara vel yfir milljarðinn.  Annað nærtækt dæmi er Selfosshöllin, 6.500m2 sem tekin var í notkun í lok árs 2021. Kostnaður milli 1.500-2.000 m.kr..

Að gefnu tilefni er rétt að geta þess að tryggingakostnaður er sambærilegur á milli húsategunda og samanlagður viðhalds og orkukostnaður loftborins húss er mun lægri.

Hamarshöllin er tryggð

Mannvirki geta fokið, þau geta brunnið og þau geta fallið saman. Sama hvort um er að ræða loftborin mannvirki, stálgrindarhús eða límtréshús. Þess vegna eru þau tryggð.  Tryggingafélag bæjarins mun bæta stóran hluta þess tjóns sem hlaust af óveðrinu. Hafa bæjaryfirvöld verið fullvissuð um að sambærilegt mannvirki verði tryggt að nýju.

Stefnum að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja

Hamarshöllin olli byltingu í íþróttastarfi í Hveragerði þegar hún reis árið 2012. Þar með sköpuðust afar góðar aðstæður fyrir unga sem aldna til fjölbreyttrar íþróttaiðkunar. Aðstæður sem mjög margir öfunduðu Hvergerðinga af. Inni var hlýtt og notalegt og kom það mörgum á óvart sem vanari voru kaldara lofti í öðrum íþróttahúsum.

D-listinn stefnir ótrauður að frekari uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði svo sem viðbyggingar sunnan við íþróttahúsið Skólamörk og uppbyggingu gervigrasvallar í fullri stærð. Slík uppbygging gæti ekki orðið að veruleika fyrr en eftir fjölmörg ár ef ráðist er í uppbyggingu húss sem kostar margfalt á við það sem endurbygging Hamarshallarinnar eins og við þekkjum hana myndi kosta.

Bæjarfulltrúar D-listans í Hveragerði,

Eyþór H. Ólafsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir

Nýjar fréttir