4.5 C
Selfoss

Allt að vinna

Halldór Benjamín Hreinsson
Halldór Benjamín Hreinsson

Í dag er íbúafjöldi Hveragerðis kominn yfir 3000, desember 2018 var  íbúafjöldinn 2.625, þannig við erum að tala um ca. 15% aukningu á rúmum þremur árum.

Samhliða mikilli fjölgun stækka verkefnin.  Við búumst við að í svo dásamlegum bæ sem Hveragerði er þá mun verða áfram eftirsóknarvert að búa í seilingarfærlægð frá Reykjavík, í nálægð við alþjóðaflugvöll og einstaka náttúru. Við sjáum margar áskoranir við þessa mikla stækkun á stuttum tíma en ekki síst fram á mörg tækifæri til uppbyggingar.  Nú þegar er Hveragerði að stækka hratt og hafa ný hverfi verið mótuð og fleiri á leiðinni td, Hólmabrún, Varmárreiturinn og Kambalandið. Við þurfum að vera í stakk búin til að stækka innviði með þessari miklu fólksfjölgun í Hveragerði, hvort sem það er leikskóli, grunnskóli, íþróttastarf eða að huga að lífskjörum eldri borgara.

Í vaxandi bæ þarf að huga á atvinnumálum, þó að margir kjósi að vinna í Reykjavík og keyra á milli alla daga þá væri það mikil hagræðing að geta sótt vinnu í Hveragerði.  Vinna þarf að fleiri atvinnutækifærum og væri til mikilla hagsbóta að ráða verkefnastjóra atvinnumála sem myndi vinna að því að laða að atvinnufyrirtæki, vinna með einkaaðilum og nýsköpunarverkefnum til að auka atvinnumöguleika í Hveragerði og leita leiða til að styrkja hugmyndaríka Hvergerðinga. Með fleiri störfum skapast meiri tekjur til að byggja upp og fjölskyldur sleppa við að sækja vinnu annars staðar. Vinna þessi þarf að vera til framtíðar Hvergerðingum til heilla.

Framsókn leggur áherslu á að vegferð stækkunar sé í samvinnu við íbúa Hveragerðis.  Við viljum tryggja opna stjórnsýslu varðandi málefni bæjarins og taka umræðuna við bæjarbúa ekki bara fyrir kosningar heldur reglulega.  Gaman væri t.d. að hafa íbúaviku reglulega (líkt og kjördæmavika Alþingis) þar sem fyrirtæki eru heimsótt, íbúafundur boðaður og umræður teknar um starfsemi og framtíðaráform bæjarins.  Þannig geta þeir sem vilja komið sínum málefum á framfæri á opnum fundum um það sem brennur á góma hverju sinni.

Nokkrar skemmtilegar lykiltölur frá Þjóðskrá

  • Fjöldi íbúa í Hveragerði er 3.020
  • Meðalaldur íbúa 40,1 ára
  • Elsti íbúinn er 96 ára
  • Íslenskir ríkisborgarar 93,6% og erlendir ríkisborgarar 6,4%
  • Konur eru 49,8% íbúa og karlar 50,2% íbúa
  • Vinsælasta kvenmannsnafnið er Sigríður og karlmannsnafnið er Guðmundur

Framtíðarmöguleikar Hveragerðis eru miklar í hratt stækkandi bæjarfélagi hvort sem það er í uppbyggingu húsnæðis eða atvinnu.

Við vinnum þetta saman!

Halldór Benjamín Hreinsson,
framkvæmdastjóri og skipar 2. sæti lista Framsóknar í Hveragerði

Nýjar fréttir