-1.1 C
Selfoss

Af hverju setja sveitarfélög fé og tíma í skipulagsvinnu og fara fram á það sama af framkvæmdaaðilum?

Gerð aðalskipulags

Á sveitarfélögum hvílir skipulagsskylda samkvæmt lögum og er aðalskipulag eitt af megin stefnuskjölum sveitarstjórnar hverju sinni enda mikið lagt í gerð aðalskipulags. Í upphafi kjörtímabils ber sveitarstjórn að taka ákvörðun um hvort farið verði í endurskoðun aðalskipulags á kjörtímabilinu.  Sé það ákveðið fær sveitarstjórn fagaðila til að halda utanum vinnuna og gæta þess að plaggið taki til allra þeirra þátta sem því ber að gera, auk þess sem íbúum og landeigendum gefst kostur á að koma að málum á öllum stigum verksins. Haldnir eru fundir bæði með minni hópum og aðrir opnir fyrir alla og skipulagið margauglýst á vinnslutíma svo sem flestum gefist tækifæri til að koma væntingum sínum og skoðunum á framfæri um hvernig framtíðarskipulagi sveitarfélagsins verði háttað. Á vinnslutíma eru gögn send á ýmsa opinbera aðila til umsagnar og þeim gefinn kostur á að koma að borðinu. Að lokinni vinnu heimafyrir fer skipulagið til endanlegrar samþykktar í ráðuneyti skipulagsmála hverju sinni. Þegar aðalskipulag hefur fengið samþykki ráðherra er það orðið stefnumarkandi plagg sem sveitarstjórn og íbúum ber að fara eftir við sínar skipulagsákvarðanir.

Deiliskipulagsgerð

Gerð deiliskipulags er á hendi landeigenda en ekki er gerð krafa um það þegar um minniháttar framkvæmdir er að ræða, en hyggi fólk á stærri framkvæmdir eða verulega uppbyggingu er um að gera að fara sem fyrst í gerð deiliskipulags og láta þar alla uppbyggingu koma fram sem hugur fólks stendur til að ráðast í. Framlagt skipulag fer svo í ferli auglýsinga og umsagna þar sem bæði nágrönnum og opinberum aðilum er kynnt málið sérstaklega og kallað eftir viðbrögðum þeirra. Komi upp sú staða að heimildir innan skipulags gangi lengra en heimildir aðalskipulags leyfa er hægt að óska breytinga á aðalskipulagi sem, sé hún samþykkt, fær þá sömu málsmeðferð og gerð aðalskipulags hvað varðar kynningu svo allir séu meðvitaðir og geti komið ábendingum á framfæri.  Að eiga tilbúið skipulag af landi flýtir mjög allri málsmeðferð hjá byggingafulltrúa þegar kemur að framkvæmdum þar sem allri kynningu er lokið á fyrri stigum og ljóst hvað má byggja.

Afmörkun lands/ lóðablöð

Á undanförnum árum hefur sem betur fer fjölgað mjög lóðum og lendum sem hafa verið hnitsettar og fengið sín mörk þinglýst samkvæmt því, en þó er enn talsvert ógert í því og ástæða til að hvetja landeigendur til að láta vinna fyrir sig lóðablöð sem svo fá uppáskrift eigenda aðliggjandi lendna.  Þetta er vinna sem skilar sér til framtíðar varðandi breytingar á landnotkun eða möguleg eigendaskipti.

Flóahreppur rekur ásamt fimm öðrum sveitarfélögum UTU, Umhverfis og tæknisvið uppsveita, sem annast skipulags- og byggingamál á svæðinu. Þar starfar hópur fólks með breiða fagþekkingu í málaflokkunum sem nýtist svæðinu vel. Sveitarfélögin eiga hvert sinn fulltrúa í skipulagsnefnd sem fundar aðra hverja viku og fer yfir mál sem þarfnast afgreiðslu og sendir sínar niðurstöður til fullnaðar afgreiðslu á sveitarstjórnir sem eiga lokaorðið í þessum málum.

Framfaralistinn hvetur þá sem hyggja á framkvæmdir til að hefja skipulagsvinnu svo fljótt sem mögulegt er þar sem allar viðbætur eða breytingar á áður samþykktu skipulagi taka tíma. Eins hvetur Framfaralistinn íbúa til að fylgjast með og kynna sér auglýstar breytingar á skipulagi og koma á framfæri ef þeir hafa athugasemdir eða ábendingar um eitthvað sem betur mætti fara. Einnig er fáséð að send sé hvatning til skipulagsaðila en er ánægjulegt þegar slíkt gerist.

Árni Eiríksson skipar 1. sæti á Framfaralistanum í Flóahreppi

 

Nýjar fréttir