0.6 C
Selfoss

Brúin og byggðin

Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson

Brúin yfir Ölfusá er bæði lífæð og upphaf nýrrar byggðar á Selfossi. Fyrir áratug setti Alþingi nýja brú í forgang.

Ákveðið var í samgönguáætlun að hún skyldi vera fyrsti áfangi í breikkun og tvöföldun Suðulandsvegar. Þáverandi meirihluti bæjarstjórnar fékk því frestað. Illu heilli. (Hvað er þetta með sjálfstæðismenn og sífelldar tafir gegn umbótum?).

Ekki var til staðar innan hans eining og sannfæring fyrir því að byggja ætti nýja brú fyrir ofan bæiinn. Veita þangað þungaflutningum og greiða þeim leið sem ekki ætla eða þurfa að stoppa á Selfossi.

Bæta um leið stórum aðgengi þeirra sem inn í bæinn ætla að fara.

Um árabil hefur brúin verið ótrygg og tálmi öruggrar umferðar um og í gegnum Selfoss.

Loksins hefur verið tekin ákvörðun um tilfærslu brúarinnar, eftir mikið þóf og ítrekaðar frestanir. Í því felast bæði sóknarfæri og áskoranir.

Verslun og fjölbreytt þjónusta eru á meðal helstu styrkleika Árborgar sem höfuðstaðar Suðurlands. Aðgengi að henni batnar stórum með nýrri brú. Þá skapast færi á að breyta Austurveginum í snyrtilega og mannvæna braut í gegnum bæinn.

Við sáum það glöggt þegar heimsfaraldurinn gekk yfir hvað ferðaþjónustan er öflug og sterk á Suðurlandi. Nálægðin við flugvöllinn og höfuðborgina, auk fjölda vinsælla áfangastaða ferðafólks, er ómetanleg auðlind.

Í ferðaþjónustunni felast óteljandi tækifæri. Okkar sem samfélags og sveitarfélags er að nýta  þau til hins ítrasta á næstu árum. Nýr og glæsilegur miðbær á Selfossi styrkir enn þessar stoðir atvinnulífsins.

Undirritaður hefur undanfarin ár byggt upp og rekið ferðaþjónustu á Selfossi og í uppsveitum. Það reyndi á öll þolrif að koma rekstrinum í gegnum heimsfaraldurinn, en það tókst og merkilegt að upplifa það hvað Suðurlandið var fljótt að taka við sér.

Brúin yfir vatnsmesta fljót landsins markar enn á ný þáttaskil og okkar er mæta þeim. Byggðin mun elta brúna en sveitarfélagsins er að stýra þeirri þróun og hvernig það svæði verður nýtt.

Björgvin G. Sigurðsson,
skipar 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í Árborg.

Nýjar fréttir