7.3 C
Selfoss

Afreksmennina heim

Arnar Freyr Ólafsson
Arnar Freyr Ólafsson

Hluti af sjálfsmynd bæjarfélaga markast oft af árangri íþróttafólks sem þar býr. Því lengra sem lið eða einstaklingsíþróttamenn ná, því stoltari verða þeir af uppruna sínum og bæjarfélagið af þeim. Allir í samfélaginu geta samsamað sig afreksmanninum eða eiga jafnvel hlut í árangri hans. Skemmtilegt er að minnast þess þegar Íslandsmeistaratitillinn í handbolta kom á Selfoss eða þegar við áttum karlalið í efstu deild í knattspyrnu. Við höfum átt fjöldann allan af Íslandsmeisturum í einstaklingsíþróttum og er listinn þar mjög langur.

Byggjum upp afreksmennsku

Undanfarið hef ég átt gott samtal við þjálfara í Árborg og virðast þeir allir vera sammála um að við erum að missa frá okkur margt af efnilegasta íþróttafólki okkar til Reykjavíkur eftir útskrift úr Fjölbrautaskóla Suðurlands. Sjálfur er ég gott dæmi um slíkt en ég yfirgaf heimabæ minn 17 ára gamall og fór til Bandaríkjanna til þess að stunda íþróttir.

Hvað er til ráða? Lítum á hvað við eigum. Við erum með mannvirkin, þjálfarana, sjúkraþjálfarana og aðstöðuna. Við höfum nánast allt fyrir iðkendur nema háskóla. Ljóst er að margt af efnilegasta íþróttafólki okkar er ekki einungis gott í íþróttum heldur er það einnig gott á bókina og hefur mikinn metnað til náms. Það er því tekið fram yfir búsetuna og flestir flytja frá Árborg. Þetta kemur niður á árangri okkar í íþróttum en einstaklingarnir eru líklegir til að skapa sér aðstöðu til að ná árangri utan Árborgar. Nefni ég í því tilliti vin minn Véstein Hafsteinsson sem er einn besti kastþjálfari i heimi en er frá Selfossi og starfar utan landsteinanna.

Stöðvum spekilekann

Nauðsynlegt er að opna á samtalið við Háskóla Íslands um að vinna að lausn til fjarnáms hér í Árborg. Skapa aðstæður fyrir afreksfólk okkar í íþróttum til að búa, læra, æfa og ná árangri heima hjá sér. Íþróttaárangur er þjóðhagslega hagkvæmur og ber okkur að skapa bestu mögulegu aðstæður fyrir íþróttafólkið okkar.

Arnar Freyr Ólafsson,
skipar 1. Sæti hjá Framsókn í Árborg.

Nýjar fréttir