8.9 C
Selfoss

Brúum bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunar barna

Þórhildur Ingvadóttir.
Þórhildur Ingvadóttir.

Biðlistar eftir leikskólaplássi í Sveitarfélaginu Árborg hafa því miður ekki verið lengri síðan árið 2018. Þegar D-listinn í Árborg var í meirihluta árin 2014 til 2018 var að jafnaði hægt að bjóða börnum niður í 14 mánaða aldur leikskólapláss sem gaf foreldrum valmöguleika á að fara fyrr aftur út í atvinnulífið. Í dag eru 60 börn á aldrinum 17 til 18 mánaða á biðlista eftir að komast inn á leikskóla í haust.

Það á að geta verið val fyrir foreldra hvort þeir sendi barnið sitt til dagforeldris eða í leikskóla. D-listinn í Árborg vill horfa skýrt til framtíðar, gera raunhæfar áætlanir og byggja varanlegar lausnir tímanlega í takti við íbúaþróun í sveitarfélaginu. Því íbúafjölgun á ekki að skerða þjónustu við núverandi íbúa.

Aukið faglegt samstarf við dagforeldra

Í stefnuskrá D-listans í Árborg fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 14.maí 2022 er gert ráð fyrir að niðurgreiðsla til foreldra með barn í daggæslu í heimahúsi sé frá 10 mánaða aldri þar sem það geta því miður ekki allir foreldrar tekið 12 mánaða fæðingarorlof. Í dag fá foreldrar í Árborg niðurgreiðslu frá 12 mánaða aldri og því viljum við breyta strax til að brúa bilið fyrir þá foreldra sem það þurfa.

D-listinn vill sömuleiðis stuðla að aukinni faglegri samvinnu milli dagforeldra og fjölskyldusviðs sveitarfélagsins til að efla þjónustu við fjölskyldur.

Íbúar sem vilja vita meira um stefnumál D-listans í Árborg geta farið inn á www.xdarborg.is eða fylgst með á Facebook og Instagram.

Árborg okkar allra – þar sem þú skiptir máli

Þórhildur Ingvadóttir,
7.sæti D-listans í Árborg

Nýjar fréttir