1.7 C
Selfoss

Kjaramál leikskólakennara

Vinsælast

Félagsmenn 8. deildar félags leikskólakennara á Suðurlandi lýsa yfir áhyggjum varðandi þá stöðu sem upp er komin. Kjaraviðræður hafa enn ekki skilað árangri þar sem samningsaðilar ná ekki sáttum um ásættanlegan kjarasamning. Hefur því verið kallað eftir aðkomu ríkissáttasemjara við stjórn viðræðna.

Þau tvö meginmálefni sem ágreiningur er um varðar framkvæmd styttingu vinnuvikunnar annars vegar. Það hefur komið á daginn að það er með öllu óhjákvæmilegt að ekki verði skerðing vegna styttingar vinnuviku hvað varðar þjónustu við nemendur okkar þar sem í mörgum leikskólum hefur þurft að loka deildum og hafa nemendur okkar orðið fyrir því að við höfum ekki náð að framfylgja þeim lögum sem okkur ber að vinna eftir.

Í 2. grein laga um leikskóla segir „veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði“. Þá segir í sameiginlegum hluta aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla „Meginhlutverk leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er að stuðla að almennri menntun þegnanna. Skólarnir skulu leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir barna og ungmenna“.

Við teljum því ljóst að sveitarfélögin þurfa að endurskoða framkvæmd vinnustyttingar með tilliti til þarfa barna og að fjármagn þurfi til framkvæmdar.

Einnig er ágreiningur um launalegan hvata þeirra réttinda kennara og þeirra sem eru með leikskólafræði á bak við sitt nám til að taka að sér millistjórnun innan leikskólans, svo sem deildarstjórastöður og sérkennslustjórastöður. Það hefur í mörgum leikskólum reynst erfitt að fá kennara með leyfisbréf í deildarstjórastöður og sérkennslustjórastöður þar sem lítill launalegur hvati liggur þar að baki en tæpum 25 þúsund krónum munar á deildarstjóra með leyfisbréf í 100% stöðu og leikskólakennara í 100% stöðu. Þar munar þó töluverðu í ábyrgð en deildarstjóri er til dæmis með mannaforráð, foreldrasamskipti og ber ábyrgð á því að hver og einn nemandi okkar fái þá menntun sem honum ber.

Eins við öll vitum er þjóðfélagið í heild sinni að stíga upp úr erfiðu tímabili sem reyndi á grunnstoðir samfélagsins og er leikskólinn svo sannarlega ein af grunnstoðum samfélagsins. Okkur þykir leikskólar landsins hafa staðið sig vel þar sem allir kennarar lögðust á eitt til að halda leikskólastarfinu gangandi þannig að nemendur okkar hefðu sitt öryggi og fengju þá menntun sem þeim ber.

8. deild félags leikskólakennara biðlar til meðlima sveitar- og bæjarstjórna að sýna það í verki hversu mikilvægt er að hafa leikskólakennara í störfum leikskólanna og styðja leikskólakennara í kjarasamningsviðræðum þeirra.

 

Fyrir hönd 8. deildar FL 
Helga Þórey Rúnarsdóttir, Jóna Kristín Jónsdóttir, Þórdís Guðrún Þormóðsdóttir

Nýjar fréttir