5 C
Selfoss

Undraverður árangur í eitt ár

Vinsælast

Eitt ár er nú liðið frá því að Sigurhæðir, þjónusta við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi, hóf starfsemi sína á Selfossi, en dyr þeirra voru opnaðar skjólstæðingum hinn 22. mars 2021. Sigurhæðir er fyrsta og eina sérhæfða úrræðið á þessu sviði í fjórðungnum og jafnframt fyrsta úrræðið fyrir þolendur kynbundins ofbeldis á Íslandi sem býður upp á áfallameðferð sem veitt er af viðurkenndum áfallasálfræðingi. Þá er ennfremur viðamikið hópastarf, einstaklingsviðtöl, lögfræðiráðgjöf, þjónusta lögreglu og margháttuð fræðslustarfsemi til staðar innan vébanda Sigurhæða.

Soroptimistaklúbbur Suðurlands tók frumkvæði að stofnun Sigurhæða en leitaði strax til lykilaðila á Suðurlandi um þátttöku í þeim tilgangi að skapa vettvang til samhæfingar og náins samstarfs í baráttunni við það samfélagsmein sem kynbundna ofbeldið er og um aukna þjónustu við þann mikla fjölda sem glímir við afleiðingar þess. Skemmst er frá því að segja að allir þeir sem Soroptimistaklúbbur Suðurlands leitaði til tóku frumkvæðinu fagnandi og hafa öll sveitarfélögin sunnlensku, 15 að tölu, sameinast í samstarfinu innan Sigurhæða sem og Heilbrigðisstofnun Suðurlands, lögregluembættin á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, sýslumannsembættin á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Þessi samstaða og einhugur er mikið fagnaðarefni.

Kraftaverk upp á hvern dag

Á þessu eina ári hafa um hundrað konur og reyndar nokkur börn fengið þjónustu sem getur spannað allt frá einstaklingsviðtölum upp í viðamikið hópastarf og svokallaða EMDR áfallameðferð til viðbótar. Þrír meðferðaraðilar sjá um þessa þjónustu, allar fagmenntaðar og þrautreyndar. Á þessum tíma höfum við sem stöndum að Sigurhæðum séð konur rétta úr sér, líta framan í heiminn, finna sína rödd og styrk, jafnvel hefja atvinnuþátttöku aftur eftir tímabil kulnunar, örorku og vanvirkni. Þær hafa sungið fyrir okkur Soroptimistasystur, málað og dansað. Þær hafa varpað af sér oki og endurbyggt tengsl við sína nánustu, annað fólk. Stundum hafa konur bókað fyrsta tíma hjá okkur og afbókað eða ekki mætt. Þá vitum við að kjarkurinn hefur brugðist eða aðstæður yfirbugað þær – tímabundið. Þær mæta undantekningalítið seinna. Okkur Soroptimistasystrum finnst við verða vitni að kraftaverkum upp á hvern dag. Fyrir það erum við fullar þakklætis og auðmýktar, þakklætis í garð skjólstæðinga okkar, samstarfsaðila og þeirra fjölmörgu styrktaraðila sem hafa gert okkur fjárhagslega kleift að halda Sigurhæðum úti með ítrustu fagmennsku að leiðarljósi – og auðmýktar fyrir það mikla traust sem Sigurhæðir njóta.

Stuðningur er vel þeginn

Allir sem að starfsemi Sigurhæða koma, jafnt skjólstæðingar sem sjálboðaliðar og starfsfólk, hafa skrifað undir þagnarheit, en fullur trúnaður við skjólstæðinga er ófrávíkjanlegt grundvallargildi í öllu starfi Sigurhæða. Öll þjónusta Sigurhæða er endurgjaldslaus.

Á ársafmælinu erum við í þeim sporum að leita enn á ný eftir stuðningi við Sigurhæðir, enda er kostnaðaráætlun þessa árs ekki fullfjármögnuð. Fyrir þá af lesendum Dagskrárinnar sem þess óska birtum við því upplýsingar um hvernig koma má fjárhagslegum styrk til Sigurhæða á framfæri.

Soroptimistaklúbbur Suðurlands
v/Sigurhæða
Kt. 620210-1370
Brn. 0325-13-400047

 

Með innilegum þökkum,
Hildur Jónsdóttir
Verkefnisstjóri Sigurhæða

 

 

Nýjar fréttir