8.9 C
Selfoss

Draumalandið Árborg

Sigurður Torfi Sigurðsson.

Senn líður að sveitarstjórnarkosningum 2022, en þær verða haldnar 14. maí n.k. Um allt land eru  framboðslistar að taka á sig mynd, línur að skýrast hvaða einstaklingar skipa sæti á listum og hvort um sé að ræða hreina lista frá ákveðnum stjórnmálaflokkum eða blönduð framboð. Vinstri hreyfingin grænt framboð býður fram hreinan lista í Árborg og munum við kynna listann fimmtudaginn 24. mars auk helstu stefnumála. Undirritaður hefur hlotnast sá heiður að fá að leiða lista VG í Árborg. Framboðslistinn er skipaður frábærum einstaklingum sem hver og einn hefði sómt sér vel í forystu listans og vona ég einlæglega að það traust sem félagar mínir hafa sýnt mér til að leiða listann endurspeglist í vali kjósenda í vor. Í stefnumálum okkar munum við leggja áherslu á félagsleg réttindi einstaklinga, umhverfismál, náttúruvernd, jöfnuð og sjálfbærni. Í kosningabaráttunni ætlum við að koma heiðarlega fram og draga fram það jákvæða í samfélaginu.

Árborg er á vissan hátt gott samfélag, við búum hér við milt veðurfar, við erum rík af náttúrugæðum og höfum rúmt landrými. Einnig höfum við hér flesta þá þjónustu sem nútímasamfélag kallar eftir og hér býr gott fólk. Þó margt sé hér ágætt er margt sem má laga. Þar má nefna að uppbygging nauðsynlegra innviða hefur ekki haldist í hendur við aukinn íbúafjölda í sveitarfélaginu og víða virðist ganga illa að halda í horfi því sem var hér fyrir. Maður getur spurt sig hvort forgangsröðun hafi verið rétt og hvort fórnarkostnaður fyrir ýmis verkefni á vegum sveitarfélagsins sé að koma niður á nauðsynlegu viðhaldi innviða í eldri byggðakjörnum og þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.

Við í Vinstri grænum viljum gera gott samfélag betra. Við viljum gera draumalandið Árborg að nútíma samfélagi og stefnu sem styður við sérstöðu sveitarfélagsins í heild sinni en dregur jafnframt fram styrkleika sérhvers byggðakjarna og svæðis. Nútímasamfélag byggir á jöfnuði og sjálfbærni.

Í nútímasamfélagi reynum við að uppfylla þarfir allra íbúa, óháð aldri, kyni, stöðu og búsetu.

Í nútímasamfélagi teljum við sjálfsögð mannréttindi að skóli sé fyrir börnin okkar og í boðlegu húsnæði.

Í nútímasamfélagi stuðlum við að góðri lýðheilsu barna og fullorðna með aðstöðu til útivista-, tómstunda- og íþróttaiðkunar.

Í nútímasamfélagi er uppbygging nauðsynlegra innviða skrefi á undan uppbyggingu byggðarkjarna. Þar rúmast einnig óhagnaðardrifin byggingastarfssemi.

Í nútímasamfélagi teljast umhverfismál sjálfsagður hlutur. Þar eru verkefni eins og lausnir í fráveitumálum tækifæri en ekki vandamál.

Í nútímasamfélagi verndum við náttúruna, stefnum að kolefnishlutleysi og leggjum áherslu á náttúrumiðaðar lausnir.

Í nútímasamfélagi ertu ekki ein(n), við erum ein heild, án landamæra og sérhagsmuna.

Kosningar eru verkfæri fyrir einstaklinga í nútímalegu samfélagi til að ná fram breytingum og móta stefnu til framfara. Ég vil hvetja íbúa Árborgar að nota tímann fram að kosningum til að kynna sér málefni þeirra flokka og lista sem í framboði eru og nýta sér kosningaréttinn í vor.

Sigurður Torfi Sigurðsson,
skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg í sveitarstjórnarkosningum 2022.

Nýjar fréttir