5.6 C
Selfoss

Fjör og kæti í FSu

Vinsælast

Kátir dagar og Flóafár voru haldnir í fyrstu viku marsmánaðar og tókust sérlega vel að þessu sinni. Skipulag var gott og þátttaka góð og mikið líf í gula húsinu við Tryggvagötu. Segja má að flestir hafi verið búnir að bíða nokkuð lengi eftir uppákomum af þessu tagi eftir veirufrestun síðustu tvö ár. Á Kátum dögum voru haldin fjölbreytt námskeið, kynningar og uppákomur en í Flóafári hópuðust nemendur í lið og kepptu í öllum námsgreinum skólans. Hvert lið fær sérstakt heimasvæði til að skreyta og síðan keppa þau í þrautunum út um allan skóla sem kennarar hafa útbúið. Hugmyndaauðgi liðanna í útliti og skipulagningu heimasvæða var mikil að venju og fór keppnin vel fram.

Fjögur lið voru skráð til leiks að þessu sinni og fá þau þrjár vikur til að undirbúa þema og skipuleggja sig. Þau nefndust Wild West, Harry Potter, Premier League og Himnaríki. Svo fór að Harry Potter liðið sigraði að lokum en einnig voru veitt sérstök verðlaun fyrir árangur í einstökum greinum. Starfsmenn skólans leggja mikið á sig í Flóafári við undirbúning og íklæðast svo skemmtilegum búningum. Að þessu sinni var það Pelle Damby Carøe dönskukennari sem fékk viðurkenningu fyrir sinn búning þegar hann mætti í gervi ofurhetjunnar sem kennd er við leðurblöku og heitir á ensku Batman.

-jöz/guð

Nýjar fréttir