8.9 C
Selfoss

Ertu brauðhnífur eða smjörhnífur?

María Marko. Mynd: Aðsend.
María Marko. Mynd: Aðsend.

Í aðdraganda kosninga hefur verið kastað fram að mjúku málin hljóti ekki hljómgrunn kjósenda. Umræðan þurfi að vera beitt. Ég er málsvari mjúku málanna. Ég hef nefnilega búið víða, í strákofa í Kyrrahafi, blokk í Köben, húsi á Selfossi og ég veit að það er hægt að búa hvar sem er en hvar er best að lifa? Ekki halda að smjörhnífurinn geri sér ekki grein fyrir því að það þurfi að finna heitt vatn, laga frárennslismál, sinna uppbyggingu, laga fjármál o.s.frv. Ég veit að það er grunnurinn og ég geri ráð fyrir að hver hugsandi maður í samfélaginu viti það líka. Ég geng hins vegar skrefinu lengra, ég horfi til framtíðar. Það er nefnilega leiðinlegt að borða þurrt brauð, ég bæti við upplifun. Mjúku málin eru krydd lífsins, þau eru þekkingin, menningin, samveran, þjónustan, náttúran, sköpunin og framþróunin. Hver man fyrir 20 árum, þegar þeir keyrðu frá Selfossi til Reykjavíkur og skoðuðu heimasíðu Kringlunnar til að sjá hvenær hún opnaði? Enginn! Þetta var óhugsandi á þeim tíma. Hvers virði er skapandi umhverfi? Ég spyr á móti, hvers virði er Apple fyrirtækið? Facebook? Hvernig verður Árborg eftir 20 ár? Jú, við þurfum fólk sem byggir grunninn en hann er einskis virði ef íbúunum er ekki sinnt, þá kjósa þeir að lifa annars staðar.

María Marko er hönnuður og starfar við kennslu á Selfossi. Hún sækist eftir stuðningi í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Árborg.

Nýjar fréttir