5.6 C
Selfoss

Halla

Hér kemur uppskrift að peysu úr dásamlegri úrvals alpaka ull af lamadýrum. Hún er í stærð medium og víddin er 104 sm. Peysan er sérlega mjúk og létt og hentar vel allan ársins hring.

Sokkaprjónar og hringprjónar 40 og 80 sm nr 7 og hringprjónar 40 og 80 sm nr 9.
Prjónamerki og geymslunælur 4 stk.
Garn ALICE frá Permin 7 dokkur.
Prjónafesta 15 l = 10 sm 

Skammstafanir
l = lykkja, sl = slétt lykkja, br = brugðin lykkja.

Laskaúrtaka = prjónið saman 2 l, 1 br, taka 1 l af prjóninum óprjónaða, prjónið næstu og steypið þeirri óprjónuðu yfir.

Bolur
Fitjið upp 156 lykkjur á  og prjón nr 7 og tengið saman í hring. Prjónið stroff 3 l sl og 3 l br 12 umferðir. Skiptið yfir á prjón nr 9 og prjónið sl þar til bolurinn mælist 45 sm. Í síðustu umferðinni eru fyrstu 8 lykkjurnar settar á geymslunælu. Setjið prjónamerki utan um næstu  lykkju, prjónið 70 l og setjið prjónamerki utanum síðustu lykkjuna. Setjið næstu 8 l á geymslunælu og prjónið síðan aftur 70 l og setjið prjónamerki utan um fyrstu og síðustu lykkjuna. Umferðin endar vinstra megin á bakinu.

Ermar
Fitjið upp 36 l á sokkaprjóna nr 7 og prjónið stroff eins og áður 26 umferðir. Prjónið eina umferð sl og aukið þá út með því að að prjóna tvisvar í aðra hverja lykkju. Þá verða á prjóninum 54 lykkjur. Skiptið yfir á suttan hringprjón nr 9. Prjónið áfram sl og aukið út um 2 l á miðri undirermi í 10. hverri umferð alls 5 sinnum. Þá eru á prjóninum 64 l. Prjónið áfram þar til ermin mælist 47 sm. Setjið fyrstu 4 og síðustu 4 l á geymsluprjón og prjónið ermina við bolinn. Prjónið að hægra ermagatinu. Prjónið hina ermina eins og klárið umferðina en hættið þegar tvær lykkjur eru eftir að prjónamerkinu. Nú eru 252 l á prjóninum.

Berustykki
Prjónið sl og gerið laskaúrtöku (sjá leiðbeiningar fyrir ofan) við öll samskeytin í annarri hverri umferð alls 15 sinnum. Úrtakan er gerð þegar tvær lykkjur eru eftir að merktu lykkjunni sem er alltaf prjónuð brugðin.

Eftir þetta er prjónað stroff eins og áður. Haldið áfram að gera laskaúrtöku á sama hátt og áður, alls 8 sinnum og þá eru 68 l eftir á prjóninum (Skiptið yfir á styttri hringprjón þegar það hentar.)

Skiptið yfir á stuttan hringprjón nr 7 og prjónið án úrtöku 32 umferðir eða eins langt og ykkur langar að hafa rúllukragann. Athugið að í framhaldi af löskunum er prjónað sl í sl l og br l í br l en annars fylgt stroffprjóninu eins og áður.

Fellið laust af.

Gangið frá endum og saumið saman undir handvegum. Þvoið í volgu sápuvatni og leggið til þerris. Ágætt er að vinda peysuna fyrst í handklæði.

Hönnun: Alda Sigurðardóttir

Nýjar fréttir