9.5 C
Selfoss

Stolt af okkar fólki

Vinsælast

Óhætt er að segja að samfélag okkar hér á Suðurlandi ræðir þessa dagana um íþróttafólkið okkar og þjálfarana sem slegið hafa í gegn. Við eigum atvinnumenn bæði konur og karla í knattspyrnunni sem hafa svo borið flagg okkar í landsliðum Íslands hátt. Við fylgdumst með frábærum árangri fimleikafólksins okkar á Evrópumótinu í Portúgal í desember og okkar fólk hér á Suðurlandi stóð sig með mögnuðum hætti þar.Við eigum fjöldann allan af efnilegu íþróttafólki sem gerir það gott í yngri landsliðunum í nánast öllum íþróttum og fjöldinn allur af okkar unga fólki er komið á styrki í háskólum erlendis við að iðka sína íþrótt bæði í körfubolta og knattspyrnu og eflaust fleiri íþróttum.  Það væri að æra óstöðugan að reyna að telja upp allt okkar afreksfólk en ég vona að lesendur taki viljann fyrir verkið.  Á dögunum voru þjálfararnir Þórir Hergeirsson handboltaþjálfari frá Selfossi valinn þjálfari ársins á Íslandi og Vésteinn Hafsteinsson frjálsíþróttaþjálfari frá Selfossi valinn þjálfari ársins í Svíþjóð, ég óska þeim innilega til hamingju. En þessa dagana er það handboltinn sem á hug og hjörtu landsmanna og þar eigum við verðuga fulltrúa, atvinnumennina í sinni íþrótt þá Ómar Inga Magnússon íþróttamann ársins á Íslandi, Elvar Örn Jónsson, Janus Daða Smárason og Teit Örn Einarsson leikmenn landsliðsins svo eigum við talsverðan hlut í Bjarka Má Elíssyni og svo Jón Birgi Guðmundsson sjúkraþjálfara liðsins og ættum þar fleiri sem eru því miður meiddir. Hreint mögnuð er frammistaða handboltalandsliðsins og á erfiðum tímum covid og innilokana hjá stórum hluta þjóðarinnar sameinumst við ungir og aldnir heima í stofu og styðjum liðið með mikilli gleði. Við Sunnlendingar getum verið mjög stolt af okkar fólki og með þessum árangri okkar afreksmanna sem veita okkur alla þessa gleði göngum við glöð til hvers dags. Við getum líka verið þakklát fyrir allt okkar fólk sem hefur með sjálfboðastarfi íþróttafélaganna stuðlað að þessum árangri, öllum menntuðu þjálfurunum og íþróttaakademíunum í FSu. Takk fyrir allt ykkar framlag þið gerið okkur stolt, áfram Ísland.

Kjartan Björnsson
Íþróttaáhugamaður

Nýjar fréttir