6.1 C
Selfoss

Magnús J. Magnússon hlýtur Menntaverðlaun Suðurlands

Vinsælast

Menntaverðlaun Suðurlands 2021 voru afhent í fjórtánda sinn fimmtudaginn 13. janúar sl. Alls bárust átta tilnefningar.

Magnús J. Magnússon fyrrum skólastjóri Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri hlaut verðlaunin fyrir framlag sitt til eflingar leiklistarstarfs meðal grunnskólanema.

Magnús hefur í áratugi stýrt leiklistarkennslu í þeim skólum sem hann hefur starfað við. Ásamt því að vera skólastjóri, stýrði Magnús leikhópnum Lopa sem er nemendaleikhópur Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Auk þess hefur hann nýtt leiklistina til að efla samskipti og samskiptahæfni í bekkjum skólans, sem hefur eflt nemendur og styrkt þá í félagsfærni og samskiptum. Þá hefur Magnús verið ein af aðal spírum Þjóðleiks sem er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins og margra grunn- og framhaldsskóla, menningarráða, sveitarfélaga og áhugaleikfélaga á landsbyggðinni. Hann hefur í mörgum tilfellum samið sjálfur þau leikrit sem leikhópurinn hefur sett upp og fylgt verkefnum eftir með umsóknum í Uppbyggingarsjóð Suðurlands. Hefur Magnús sýnt óþrjótandi fórnfýsi hvað varðar tíma og eftirfylgni til eflingar leiklistarstarfs meðal gunnskólanema og landshlutans í heild.

Helgi Kjartansson varaformaður SASS kynnti niðurstöður úhlutunarnefndar. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin í fjarfundi.

Um Menntaverðlaun Suðurlands

Ár hvert veita Samtök sunnlenskra sveitarfélaga Menntaverðlaun Suðurlands. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi sem um leið er hvatning til frekari dáða. Allir þeir sem koma að skólastarfi með einhverjum hætti geta fengið verðlaunin; grunnskólar, leikskólar, framhaldsskólar, símenntunarmiðstöðvar, háskólastofnanir, kennarar, einstaklingar eða hópar, skólaskrifstofur, sveitarfélög/skólanefndir, foreldrafélög o.fl. Veitt eru peningaverðlaun, auk þess fylgir
verðlaununum formleg viðurkenning.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir