8.9 C
Selfoss

Hjúkrunarheimilið afhent í byrjun mars

Vinsælast

Afhending húsnæðis nýja hjúkrunarheimilisins í Árborg er áætluð í byrjun mars 2022 og gert er ráð fyrir að heimilið muni opna fyrir íbúum seinna í þeim mánuði.

Heilbrigðisráðuneytið fól Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) rekstur heimilisins eftir að sveitarfélagið hafði tilkynnt ráðuneytinu að það hygðist ekki sjá um rekstur þess. Síðan þá hefur undirbúningur staðið yfir, nú síðast undirbúningur búnaðarkaupa.

Gert hefur verið ráð fyrir að með tilkomu nýs hjúkrunarheimilis fjölgi hjúkrunarrýmum á Suðurlandi um 25.

Eldri rými sem lögð voru af við lokun tveggja hjúkrunarheimila árið 2016, Kumbaravogs og Blesastaða, hafa verið í tímabundnum rekstri, m.a. í Hveragerði, á Selfossi, Hellu, Hvolsvelli, Vík, Kirkjubæjarklaustri og Vestmannaeyjum og eiga að ganga inn í nýtt hjúkrunarheimili samkvæmt því sem lagt var upp með.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur metnaðarfull áform um þjónustu við aldraða á Suðurlandi sem myndi setja heilbrigðisumdæmi Suðurlands í forystu í samþættri þjónustu við aldraða, með höfuðstöðvar þjónustunnar á Selfossi. Þau áform eru nú til skoðunar í ráðuneytinu. Sveitarfélagið Árborg hefur mikinn metnað til að styðja við þessa þróun og telur að aðstæður í sveitarfélaginu séu mjög góðar í því tilliti.

Vegna mikils skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu óskaði ráðuneytið eftir áliti Sveitarfélagsins Árborgar á tímabundinni nýtingu hluta hjúkrunarrýma í Árborg fyrir einstaklinga sem bíða hjúkrunarrýmis á höfuðborgarsvæðinu. Eftir nokkra skoðun féllst sveitarfélagið á þá málaleitan með þeim formerkjum að í staðinn yrði framlengdur umframrekstur hjúkrunarheimila á Suðurlandi, sem annars myndu ganga inn í nýja heimilið. Eftir sem áður verða því 25 ný rými til ráðstöfunar við tilkomu nýja hjúkrunarheimilisins.

Nýjar fréttir