10 C
Selfoss

Hvert orð er leyndarmál og allir eru óþokkar

Vinsælast

Björn Unnar Valsson er bráðum fertugur bókmenntafræðingur sem starfar á Borgarbókasafni Reykjavíkur. Björn sendir vinum og fjölskyldu nær og fjær hugheilar hátíðar- og nýárskveðjur, með þökkum fyrir samverustundir á árinu sem er að líða.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að lesa This Isn’t Happening eftir Steven Hyden. Hún fjallar um hljómsveitina Radiohead og kúvendinguna sem útkoma plötunnar Kid A var í október árið 2000. Höfundurinn er mjög framarlega í frásögninni, hann nálgast plötuna og forsöguna og tíðarandann út frá sinni upplifun þarna upp úr aldamótum, sem mér þykir mátulegt fyrir umfjöllunarefnið. Það er léttur hljómur í bókinni, blaðsíðurnar fletta sér sjálfar. Fólk sem var öfugu megin við tvítugt árið 2000 held ég að geti séð fyrir sér tvo, fjóra, sex, átta menningarviðburði í kringum aldamótin sem halda áfram að skipta máli. Kannske bara fyrir mann sjálfan. Kid A var einn slíkur viðburður fyrir Steve Hyden og fyrir mig sömuleiðis — þó ég sé enn ekki alveg sjúr á því hvað mér finnst um plötuna sjálfa. Þá er ég líka að lesa Dune eftir Frank Herbert vegna þess að Denis félagi minn mælti með henni. Já og ég var að hraðspóla í gegnum Harðjaxlar stíga ekki dans eftir Norman Mailer (í þýðingu Árna Ibsen) en það er of langt mál að fara út í það. Framhald í næsta blaði.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Vísindaskáldsögur og metafiksjón, guð hjálpi mér. Dagbækur eða aðrar sannsögulegar frásagnir úr Reykjavík á bilinu 1870-1920. Hefur þú lesandi góður rannsakað hringjaramálið? Sendu mér skilaboð. Og stuttir prósar sem saman mynda heild í þunnu kveri, það er eitthvað sem ég skal lesa allan daginn. Eða kannske hálfan daginn, þetta eru yfirleitt stuttar bækur. Kuðungasafnið eftir Óskar Árna. Svarti sauðurinn og aðrar fabúlur eftir Monterosso í þýðingu Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur. Og Tappi á himninum eftir Evu Rún Snorradóttur, sem ég skal mæla með við hvern sem spyr mig „hvað á ég að lesa næst?“ Talandi um að kveikja á perunni í kringum aldamótin, Tappi á himnum er nánast eins og minning um það.

Ertu alinn upp við lestur bóka?

Já það var lesið fyrir mig og mér þótti það dýrmætt. Mér þykir það ennþá. Ég sé fyrir mér bókasafnið í Hveragerði þarna uppá hæðinni, Enid Blyton í bunkum og Dularfullu-bækurnar með gráa kjölinn og rauðdoppótta bandið sem hlaut að þýða eitthvað. Síðan leitaði ég í myndasögurnar á bókasafninu þegar ég var sjálfur farinn að lesa og uppáhaldið var Prins Valíant eftir Hal Foster, í stóra brotinu. Þetta eru riddarasögur fyrir börn sem eru stundum ekki við hæfi barna og hvað ætli maður vilji frekar. Oft og tíðum stórkostlegar teikningar, alltaf nýtt ævintýri handan við hornið, eða á ókunnri strönd þar sem söguhetjan okkar raknar úr roti. Og blóðsúthellingarnar! Og nú er ég svo lánsamur að geta lesið barnabækur fyrir son minn. Ráðgátubækurnareftir Widmark og Willis koma sterkar inn þessa dagana, og Norðurljós: ferðin til Jötundalsins eftir Martin Falch vakti mikla lukku. Við höfum aðeins bragðað á heimsbókmenntunum saman en hann er samt meira fyrir nýju þýðingarnar af Viggó Viðutan, svo þar hefur strax myndast gjá, djúp og myrk, sem ég býst við að breikki bara með árunum. Piedbœuf? hvái ég. Þetta hét nú álfakroppa-appelsín í mína tíð væni.

Segðu frá lestrarvenjum þínum.

Fyrst finn ég bók til að lesa sem gerist meira og minna af sjálfu sér. Síðan les ég fyrstu tvo þrjá kaflana og missi svo áhugann. Ég legg hana frá mér í tólf til átján mánuði, hnýt þá um hana aftur og les hana til enda. Þetta er gjarnan besta bók sem ég hef lesið um tíðina og svo gleymi ég henni hálfum mánuði síðar.

Einhverjir uppáhaldshöfundar?

Eddie Campbell, Grant Morrison, Franquin, Kurt Vonnegut og Susanna Clarke vegna þess að bækurnar þeirra lýsa í myrkri.

En hefur bók einhvern tímann rænt þig nætursvefni?

Það kemur sárasjaldan fyrir, en reyndar síðast fyrr í ár þegar ég var á loka metrunum með 1983, síðustu bókina í Red Riding kvartettnum hans David Peace. Ég sá kvikmynda aðlaganirnar þrjár í denn, svo skutu þær upp kollinum á Netflix ef ég man rétt og þá las ég bækurnar. Þetta er heillöng saga um spillingu, ofbeldi og volæði í Yorkshire í Bretlandi á áttunda og níunda áratugnum. Það er stöðugt drukkið, hvert orð er leyndarmál, reykjarmökkur yfir rökum bar og læstar hirslur í gleymdum skúr, og allir eru óþokkar. Og Yorkshire-morðinginn er alltaf á ferli þarna einhversstaðar með hamarinn sinn. Peace skrifar helminginn af svona fjórum sögum í fyrstu þremur bókunum, og fyllir svo inn í eyðurnar og lokar öllu saman í þessari síðustu bók. Þetta er deprímerandi stöff, spurningin sem hélt mér vakandi þarna í lokin var ekki „hvernig endar þetta?“ heldur frekar „hversu illa endar þetta eiginlega?“

Og þá er það lokaspurningin Björn, hvernig bækur myndi skáldið í þér skrifa?

Ég myndi sennilega skrifa glæpasögur inní íslenskan veruleika, um spillingarmál og morð sem væru framin á stöðum sem fólk kannast við. Rannsakandinn og aðalpersónan væri skeleggur blaðamaður eða kannske frekar lögfræðingur. Morðið í útvarpshúsinu, Morðið í Almannagjá, Morðið í hérðasdómi. Nú er ég bara að velta upp mögulegum titlum. Ætli ég myndi samt ekki skrifa undir dulnefni til öryggis.

_______________________________________

Umsjón með lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason.

Nýjar fréttir