7.3 C
Selfoss

Fjölskyldutónleikar í Skálholtsdómkirkju á sunnudaginn

Vinsælast

Á sunnudaginn kl. 16 verða fjölskyldutónleikar í Skáholtskirkju þar sem flutt verður verkið ,,Myndir á sýningu“ eftir rússneska tónskáldið Modest Mussorgsky. Flytjendur eru Jón Bjarnason á orgel, Jóhann I. Stefánsson á trompet, Páll Palomares á fiðla og Xun Yang á kontrabassi.

Þeir félagar Jóhann Stefánsson trompetleikari og Jón Bjarnason organisti fengu þá frábæru hugmynd að æfa eitt af stórvirkjum tónlistarsögunnar, ,,Myndir á sýningu“ eftir Modest Mussorgsky. Þeir hafa flutt það á tónleikum í útsetningu fyrir trompet og orgel i þremur kirkjum á Íslandi; Selfosskirkju, Skálholti og í Fríkirkjunni í Reykjavík.

„Myndir á sýningu“ er verk með tíu köflum – auk göngustefs sem endurtekið er í ýmsum myndum – samið fyrir píanó af rússneska tónskáldinu Modest Mussorgsky árið 1874.

Verkið lýsir upplifun tónskáldins af myndlistarsýningu með málverkum eftir Viktor Hartmann. Hver kafli lýsir ákveðinni mynd og svo heyrist göngustefið á milli kafla.

Svítan er frægasta píanótónsmíð Mussorgskys og hefur verið flutt af flestum píanóeinleikurum heimsins. En mestum vinsældum hefur verkið hlotið í útsetningu Maurice Ravel frá 1922 fyrir fulla sinfóníuhljómsveit.

Á þessum fjölskyldutónleikum bætast við tvær frábærir hljóðfæraleikarar þeir Páll Palomares fiðluleikari og Xun Yang kontrabassaleikari og eru þeir báðir fastráðnir í Sinfóníuhljómsveit Íslands.  Verkið verður flutt í útsetningu fyrir trompet, orgel. fiðlu og kontrabassa. Verkið hefur sennilega aldrei verið flutt með þessari hljóðfæraskipan áður svo vitað sé.

Á tónleikunum verður verkið kynnt og sýndar myndir sem varðveist hafa og veittu tónskáldinu innblástur. Verkefnið er styrkt af Tónlistarsjóði.

Aðgangseyrir við innganginn kr. 3.000. Frítt fyrir börn yngri en 12 ára. Allar sóttvarnarreglur verða að sjálfsögðu í hávegum hafðar.

Nýjar fréttir