8.9 C
Selfoss

Bætt þjónusta við unglinga- og ungmenni í Árborg

Vinsælast

Unglinga- og ungmennaráðgjafi Árborgar hóf störf hjá sveitarfélaginu fyrr á árinu og hefur unnið að stefnumótun starfsins þar sem um nýtt úrræði í þjónustu í þágu farsældar barna er að ræða. Ráðgjafinn sinnir þjónustu við börn á aldrinum 13-16 ára og foreldra þeirra. Unglinga- og ungmennaráðgjafinn starfar í forvarnarteymi Árborgar og hefur meðal annars komið að stærri forvarnarverkefnum innan sveitarfélagsins.

Með starfi unglinga- og ungmennaráðgjafans er byggð brú á milli þjónustu barna. Markmið ráðgjafarinnar er að grípa börn og veita þeim aðstoð og stuðning t.d. vegna félagslegrar einangrunar,  kynvitundarmála, tómstunda- og frístundamála og annarra almennra félagslegra mála. Ráðgjafinn leggur áherslu á að auka virkni barnsins utan skólatíma ásamt því að beina barninu í það úrræði sem hann telur vænlegt til árangurs út frá stöðu barnsins. Markmiðið er að mæta vandanum á fyrri stigum til að sporna gegn því að þau þurfi frekari þjónustu síðar meir. Ráðgjöfin stendur einnig til boða fyrir þau ungmenni á aldrinum 16-18 ára sem stunda hvorki framhaldsskólanám né eru virkir þátttakendur á vinnumarkaðnum. Við vinnslu mála er ráðgjafinn ávallt í samvinnu við foreldra/forráðamenn barnsins.

Markmiðið er að þjónustan sé aðgengileg öllum íbúum sveitarfélagsins, en hún er hluti af þjónustu barnateymis félagsþjónustunnar. Ráðgjöfin er íbúum sveitarfélagsins að kostnaðarlausu og hægt er að hafa samband við starfsfólk grunnskóla Árborgar sem beina málinu í réttan farveg eða í gegnum þjónustuver Árborgar til að óska eftir aðkomu ráðgjafans.

 

Inga Þórs Yngvadóttir, unglinga- og ungmennaráðgjafi Árborgar 

Heiða Ösp Kristjánsdóttir, deildarstjóri félagsþjónustu Árborgar

Nýjar fréttir