8.9 C
Selfoss

Uggandi yfir ofbeldi meðal ungmenna í Árborg

Vinsælast

Nokkuð hefur borið á ofbeldi á meðal unglinga í Sveitarfélaginu Árborg að undanförnu. Aðilar innan forvarnateymis sveitarfélagsins eru uggandi yfir stöðunni og hafa brugðist við með ýmsum hætti. Ofbeldið fer m.a. þannig fram að ungmenni eru að leggja til atlögu við einhvern einn og þá jafnvel í hópi. Ekki þarf að fjölyrða um hvernig áhrif slíkrar hegðunar getur haft á þann sem fyrir verður. Við ræddum stuttlega þessa hluti við m.a. við Barnavernd Árborgar, Lögregluna og sjúkraflutningamenn HSU og fengum þeirra viðbrögð við þessum fréttum.

Myndbönd tekin upp og dreift

Aðal málið virðist vera að taka myndböndin upp og setja í dreifingu á samfélagsmiðlum. Það er ekki of oft kveðin vísa að byrja fræðsluna heimafyrir og hvetja unglinga og ungmenni til að hugsa út í þær afleiðingar sem ofbeldi getur haft, bæði fyrir þau sjálf og fórnarlömb. Í samtali við fulltrúa barnaverndar í Árborg kemur fram að starfsfólk þar hafi vissulega miklar áhyggjur af auknu ofbeldi meðal ungmenna í samfélaginu hér í Árborg. „Barnavernd er í góðu samstarfi við aðrar stofnanir og þá sérstaklega lögreglu þegar kemur að ofbeldi. Boðleiðir milli stofnana í Árborg eru greiðar vegna þverfaglegs samstarfs og því er barnavernd hér að ná að grípa snemma inn í ákveðna hegðun hjá ungmennum í Árborg.

Vandað verklag í málaflokknum

Í ofbeldismálum hefur barna­vernd þróað ákveðið verklag þegar ofbeldi á sér stað. Aðgerðir barnaverndar fara eftir alvarleika ofbeldis og aldri einstaklinga, en bent er á að sakhæfisaldur er 15 ár. Þegar spurt er um þau úrræði, sem stuðst er við komi þessi mál inn á borð kemur fram að íhlutunin geti falið í sér samtal við barn og forsjáraðila en í öðrum tilfellum geti verið boðað til sáttafundar með aðkomu lögreglu. „Það er gert í því skyni að ungmenni komist yfir sinn ágreining og geti haldið áfram að vera saman í samfélaginu án frekari eftirmála. Barnavernd Árborgar leggur ríka áherslu á að forvarnafræðsla hefst heima og því mikilvægt að forsjáraðilar ræði alvarleika ofbeldis og afleiðingar þess.“

Lögregla vakandi og grípur inn í mál

Í samtali við lögregluna á Suðurlandi kom fram að lög­regla tæki undir þessar áhyggjur og væri meðvituð um stöðuna. Innan þeirra raða hefði verið, í samstarfi við bæði barnavernd og aðrar stofnanir, unnið að því að taka á málunum sem upp hefðu komið. Það væri meðal annars í höndum hverfislöggæslu að halda fast utan um þessi mál.

Eitt högg getur haft varanleg áhrif

Dagskráin leitaði álits Hermanns Marinós Maggýjarsonar, yfir­manns sjúkraflutninga við HSU varðandi áverka sem hlotist geta af svona hegðun. Hermann sagði að mörg fordæmi væru fyrir því að ofbeldi af þessu tagi færi úr böndunum og minnti á það að eitt högg á vondan stað gæti dugað til þess að örkumla fólk út lífið. Þá minntist Hermann einnig á þau sár sem fólk, sem upplifir svona, geti haft á sálinni um langa framtíð. Það sé eitthvað sem skipti máli að horfa til. „Við verðum að taka höndum saman sem samfélag og uppræta allt ofbeldi með öllum tiltækum ráðum.“

Nýjar fréttir