3.4 C
Selfoss

Flóaskóli fær afhentan Grænfána í fyrsta sinn

Vinsælast

Á degi íslenskrar náttúru, 16. september síðastliðinn, fékk Flóaskóli í fyrsta skipti afhentan Grænfána við hátíðlega athöfn. Grænfánaverkefnið – Skólar á grænni grein,  er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem rekið er af Landvernd á Íslandi. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntum til sjálfbærni og styrkja umhverfisstefnur skóla.

Flóaskóli sótti um að gerast skóli á grænni grein árið 2018 og hóf þegar vinnu við skrefin sjö sem eru ferli sem grænfánaskólar fylgja. Á vormánuðum 2021 höfðu öll skrefin verið stigin og sótti Flóaskóli um grænfána í kjölfarið. Þau þemu sem Flóaskóli hugaði sérstaklega að á þessum tíma voru „Neysla og úrgangur“ og „Orka“.

Það þótti vel við hæfi að fá grænfánann formlega afhentan á sjálfum degi íslenskrar náttúru. Haldin var stutt hátíðardagskrá á útisvæðinu við skólann þar sem m.a. nemendur í umhverfisráði Flóaskóla fluttu frumsamið ljóð og ávarp. Umhverfissáttmáli Flóaskóla var sunginn, en hann er ljóð sem nemendur fæddir árið 2010 sömdu.

Umhverfissáttmáli Flóaskóla

(Lag: Piparkökusöngurinn)

Þegar umhverfi skal vernda,

þarf að gæta þess að henda

öllu rusli á sína staði

og að flokka alveg rétt.

Spara orku það við kjósum,

alltaf muna að slökkva á ljósum,

stilla ofna, loka gluggum, hitinn má ei sleppa út.

 

Út að ganga eða skokka,

ætlum við að muna að plokka.

Planta trjám og alls kyns gróðri,

spara eldsneyti og vatn.

Ef við gerum þetta saman,

trúð‘okkur það verður gaman.

Vertu með í liði Flóaskóla,

verndum okkar jörð.

(Höfundar: Nemendur í árg 2010 í Flóaskóla)

 

Margrét Hugadóttir, sérfræðingur hjá Landvernd og Skólum á grænni grein, afhenti skólanum svo formlega grænfánann sem var hífður upp í fánastöng við mikinn fögnuð viðstaddra. Að hátíðardagskrá lokinni var nemendum, starfsfólki og gestum boðið upp á kökuveislu að hætti hússins.

Grænfáninn fagnar 20 ára afmæli á Íslandi skólaárið 2021-2022 og verður haldið upp á það með því að senda starfsfólki og nemendum skóla á grænni grein afmælispakka í hverjum mánuði með fræðsluefni og verkefnum tileinkuðum ákveðnu þema.  Fékk Flóaskóli sinn fyrsta afmælispakka afhentan við þetta tækifæri.

Næstu skref í grænfánaverkefni skólans er að velja ný þemu til að vinna með. Verður það gert með umræðuverkefnum og kosningu. Þegar því er lokið hefst vinna við innleiðingu og er stefnan tekin á annan grænfána innan fárra ára.

Ljóð sem samið var sérstaklega af þessu tilefni.

 

Hlustið á jörðina gráta hljótt

æpa á þá sem heyra:

„Þið verðið að gera eitthvað fljótt,

ég get bara ekki meira“.

 

Okkur er annt um umhverfið,

þar undur leynast víða.

En vernda þarf einnig vistkerfið

ei sóðaskap má líða.

 

Ferðamátar menga svörð

minnkum notkun bíla.

Þeir skilja eftir sviðna jörð,

svo er af þeim fýla!

 

Skóli í Flóa grænn nú er,

dregur fána að húni.

Halda skal mikinn fögnuð hér

svo heyrist út að túni.

Höfundur: Ólöf Vala Heimisdóttir, nemandi í 10. bekk Flóaskóla

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir