0.6 C
Selfoss

Bein á gati fyrir fjóra – Osso Bucco

Vinsælast

Steinn Vignir er matgæðingur vikunnar

Í fyrsta lagi þá langar mig að benda á að þrátt fyrir ítrekað suð í vini mínum og ritstjóra Dagskrárinnar, Gunnari Páli Pálssyni, þá hef ég verið tilnefndur ekki í gegnum klíkuskap heldur vinskap.

Í öðru lagi vil ég þakka Rebekku Stefánsdóttir vinkonu minni og morðingja kærlega fyrir tilnefninguna.

Nú skulum við elda mat sem hentar vel fyrir haust. Íslenskt grænmeti og tuddi úr haga og fyrir komandi lægðagang er þessi eldamennska upplögð.

 

OSSO BUCCO – Bein á gati – Fyrir fjóra

Hráefni og aðferð

  • Skanki af nauti, sagaður í 5cm sneiðar. Amk 1 steik/mann (frammíkall: Villt og Alið á Hellu græjar þetta eftir pöntun)
  • 1dl hveiti
  • Salt og pipar
  • Smjér og olía

Þurrkið steikurnar með tissjú og saltið og piprið ríkulega. Veltið því næst steikunum upp úr hveiti og leggið í brennheita feitina(smjörið og olían) í stórri pönnu. Lokið ketinu á alla kanta, fáeinar mínútur á hverri hlið og færið í djúpt eldfast mót og látið hvíla. Í guðs bænum geymið feitina í pönnunni þangað til í næsta skrefi.

  • 1 stór laukur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 stilkar sellerí
  • 3 gulrætur
  • Ferskar kryddjurtir; rósmarín, timían, steinselja
  • 1 Stout bjór, t.d. Lava frá Ölvisholti
  • ½ l Essential cuisine nautasoð
  • ½ l Kóla drykkur
  • ½ l Rauðvín (m.v. venjulega 750ml flösku eru 2 lítil glös eftir í flöskunni sem kokkurinn ræður hvort hann drekki með matseldinni eða með matnum. Bæði fullkomlega skiljanlegt.)
  • ½ l vatn
  • Salt og pipar
  • Feitina
  • 50gr tómatpúrra
  • 400gr maukaðir tómatar

Grænmetið skal saxað niður smátt og steikt við miðlungshita í stórum potti með feitinni. Saltið og piprið og bætið svo öllum vökvum og tómatpúrrunni og maukuðu tómötunum í pottinn og hleypið á suðu. Bindið kryddjurtirnar saman og bætið útí og því næst er innihaldi pottsins varlega hellt yfir vel hvílt kjötið og ætti vökvinn ætti að hylja kjötið. Mótinu er stungið inn í forhitaðan ofn á 140°C í fjórar klukkustundir og eftir það ætti grænmetið að vera mauksoðið og kjötið einu stoppi frá því að breytast í kæfu. Með Osso Bucco er gott að borða karteflumús úr spánýju gullauga og góðu brauði.

 

 

 

Nýjar fréttir