11.1 C
Selfoss

Brúin kemur!

Vinsælast

Mikið hefur verið rætt og ritað um nýja brú yfir Ölfusá, fyrir ofan Selfoss, og væntanlegt veggjald yfir hana. Fyrir nokkrum árum voru uppi áætlanir að hefja framkvæmdir við hana árið 2018 og taka hana í notkun árið 2021. En við vitum hvernig það fór. Nú er ljóst að brúin er að koma og framkvæmdir við hana, og vegtengingar beggja vegna ár, verða boðnar út fyrir áramót.

En hvers vegna er brúin loks að koma núna? Vegna þess að ákveðið hefur verið að fara í samstarf við verktaka og fjármálafyrirtæki við brúarframkvæmdina og fara svokallaða PPP-leið sem Vegagerðin hefur kynnt. Í þessu felst m.a. að þá er tekið veggjald af umferðinni til að borga upp framkvæmdina og flýta fyrir því að af framkvæmdinni verði.

Mikið hefur verið rætt um hvað gjaldið á að vera hátt fyrir að fara yfir brúna og ýmsar upphæðir verið nefndar. Þó hefur umræða um verð í kringum 400 kr. verið oftast nefnd. Væntanleg á Vegagerðin erfitt með að ákveða verð fyrirfram þegar ekki er búið að finna samstarfsaðila í verkið. Því verðum við að treysta því að þegar það verði ákveðið verði það gert með hliðsjón af því að fá sem mesta umferð á nýju brúna og þar með geti gjaldið verið sem lægst.

Hvað sem gjaldið verður þegar brúin verður opnuð er það ljóst að um mikla samgöngubót verður að ræða og umferð um og í kringum Selfoss mun verða mun greiðari en í dag. Einnig má ekki gleyma því að miklar framkvæmdir eru í gangi í Ölfusi og á mörgum öðrum stöðum á Suðurlandi og ber að þakka núverandi samgönguráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir það grettistak sem unnið hefur verið í samgöngumálum á Suðurlandi á yfirstandandi kjörtímabili.

Helgi Sigurður Haraldsson
forseti bæjarstjórnar í Svf. Árborg

Nýjar fréttir