13.4 C
Selfoss

Betri heilbrigðisþjónustu á Suðurland

Vinsælast

Hér á Suðurlandi hefur íbúum fjölgað hratt á undanförnum árum auk þess sem á svæðinu eru þúsundir sumarbústaða. Á sama tíma hefur heilbrigðisþjónusta hér á svæðinu dregist aftur úr í fjárveitingum miðað við íbúafjölda og þann fjölda ferðamanna sem fer um héraðið. Íbúar á þessu svæði sitja enn uppi með afleiðingarnar af niðurskurði til málaflokksins í fjárlögum ársins 2009. Þá voru næturvaktir lífeindafræðinga og geislafræðinga teknar af við HSU. Í dag eru gerðar  18 – 20 þúsund rannsóknir af lífeindafræðingum á mánuði og fjölgar stöðugt. Sé grunur um hjartaáfall eftir miðnætti eru sjúklingar hins vegar keyrðir á bráðamóttöku LSH í stað þess að málið sé leyst á 40 mínútum á HSU.  

Tólf árum síðar er þjónustan á þessu svæði langt í frá því sem nauðsynlegt verður að telja. Þetta lýsir sér einnig í margra klukkutíma bið á bráðamóttöku um helgar og að fjöldi íbúa er skráður á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Allt þetta veldur auknu álagi bráðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Enginn þarf heldur að vera í vafa um að þetta veldur óþarfa álagi á læknavaktina, þar er jú hægt að fá viðtal samdægurs leggi fólk á sig að bíða í 1-2 klukkutíma. Staðreyndin er sú að komur á bráðamóttökuna og læknavaktina eru milli 700-800 á sólarhring. Þetta eru allt of dýr úrræði fyrir þjónustu sem hægt væri að veita með öflugri heilsugæslu og þjónustu í nærumhverfi. Þegar ferðaþjónustan nær sér á strik á ný mun álagið á þessa mikilvægu innviði enn aukast. Hér þarf því að koma til heildstætt átak til að úr verði bætt. 

Fyrirliggjandi fjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar,  gerir ráð fyrir niðurskurði næstu árin og eykur því ekki líkurnar á auknum fjárframlögum til málaflokksins. Nýja ríkistjórn þarf til þess að svo verði. Settu X við M á kjördag.

Erna Bjarnadóttir
2. sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Nýjar fréttir