12.3 C
Selfoss

Betri heilbrigðisþjónustu

Vinsælast

Það ástand sem ríkt hefur í þjóðfélaginu síðustu misserin í kjölfar heimsfaraldurs hefur sýnt fram á mikilvægi heilbrigðiskerfisins í landinu og að allir hafi jafnt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu. Það er ekki sjálfgefið að heilbrigðisþjónusta njóti forgangs þegar kemur að því að deila fjármunum úr ríkissjóði, en við Íslendingar höfum haft forsjá til að byggja upp opinbert heilbrigðiskerfi þannig að fjárhagur einstaklinga stýri ekki för við meðferð eða aðgengi. Hið sama verður að eiga við varðandi búsetu, það er mikilvægt að fólk hafi aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi sínu.

Staðan í Suðurkjördæmi

Fyrir liggur að fjármagn til Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur ekki nægt til að takast á við mikla fjölgun íbúa á Suðurlandi og það álag sem fylgir fjölgun ferðamanna á svæðinu. Þannig er vert að nefna að helmingur allra sumarhúsa á landinu er staðsettur á Suðurlandi. Til að takast á við þessar krefjandi áskoranir verður að halda áfram uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu á Suðurlandi.

Það er ekki hægt að leggja sífellt meiri byrðar á heilbrigðisstarfsfólk og segja þeim að hlaupa hraðar. Tími er kominn til að hlusta á starfsfólk heilbrigðisstofnana sem hefur um langt skeið kallað eftir úrbótum við mönnun heilbrigðisþjónustunnar. Þetta ákall á við um Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Á Suðurlandi vantar sárlega fleira lækna, hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk.

Niðurskurður á opinberri þjónustu í boði ríkisstjórnarflokkanna

Samkvæmt fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar blasir ekki annað við en niðurskurður á opinberri þjónustu. Samfylkingin hafnar þessum áætlunum ríkisstjórnarflokkana og vill meiri fjárheimildir til opinberrar heilbrigðisþjónustu.

Samfylkingin hefur skýra sýn og stefnu um að gera slíkt, enda hafa jafnaðarmenn ávallt verið í fararbroddi fyrir bættri almannaþjónustu.

Viktor Stefán Pálsson, skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

 

 

Nýjar fréttir