8.9 C
Selfoss

Art-teyminu tryggt fjármagn til þriggja ára

Vinsælast

Það var heldur betur jákvæð uppákoma þegar Ásmundir Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti þær fréttir fyrir starfsfólki Art-teymisins að því hefðu verið tryggð fjármögnun til þriggja ára. Sigríður Þorsteinsdóttir, verkefnisstjóri Art-teymisins var að vonum ánægð með niðurstöðuna. „Ég get sagt að það voru margar tilfinningar sem að spruttu fram við þessar fréttir. Auðvitað eru þetta fréttir sem að við erum búin að bíða lengi eftir og við fundum að þungu fargi af okkur létt að ekki þurfa að taka þessa umræðu einu sinni enn fyrir á ársþingi SASS. Spurningin er bara sú, hvað á að tala um á SASS þinginu núna, sagði Sigríður glöð í bragði.“  Sigríður bætir svo við að hún vilji koma á framfæri þökkum til sveitarstjórnar- og þingmanna fyrir ötula samvinnu og stuðning. Ásmundur Einar sagði: „Aðgengi barna að þjónustu við hæfi án hindrana er gríðarlega mikilvægt. ART verkefnið er öflugt grasrótarverkefni sem hefur sannað sig og verið mikilvægt verkfæri fyrir börn og unglinga þegar það kemur að líðan þeirra og tilfinningastjórnun.  Með þessum samningi getur teymið skipulagt starfið lengra fram í tímann og eflt það og styrkt.“

Fjármagnið hefur mikla þýðingu fyrir fjölskyldur á Suðurlandi

Aðspurð um hvaða þýðingu fjármagnið hafi segir Sigríður: „Þetta hefur gríðalega mikla þýðingu fyrir fjölskyldur hér á Suðurlandi að hafa ART –teymið sem fyrsta úrræðið í sínu nærumhverfi. Svæðið er stórt og því oft erfitt fyrir fjölskyldur að sækja sér aðstoð vegna langra vegalengda, því reynum við ávalt að vera með þjónustuna sem næst fjölskyldunni. Fyrir ART –teymið þá verður núna mun auðveldara að setjast niður og plana lengra fram í tímann, ekki bara eitt ár í senn. Það mun einnig gagnast landsbyggðinni allri.“

Stuðningur við fjölskyldur og fagfólk

ART (Agression Replacement training) hefur verið starfrækt á Suðurlandi frá árinu 2005. ART er uppeldisleg aðferðafræði sem skiptist í þrjá þætti, þ.e. félagsfærni, sjálfstjórn og siðferði. Með því að vinna á markvissan hátt með þessa þætti er hægt að láta þá vinna betur saman sem stuðlar að bættri líðan og betri tilfinningastjórnun einstaklingsins. Þar fyrir utan eykst samskiptafærni heima, á vinnustað, í skóla og vinahóp. Teymið veitir úrræði fyrir fjölskyldur barna með tilfinninga- og/eða hegðunarvanda. Einnig býður teymið upp á námskeið fyrir fagfólk í skólum, þ.m.t. leik- og grunnskólum, velferðarþjónustum og fleira. Fjöldi ART námskeiða hafa verið haldin um land allt. Samningurinn gerir teyminu kleift að skipuleggja starf sitt lengra fram í tímann og ýta úr vör nýjum þróunarverkefnum.

Nýjar fréttir